Athygli hugans flöktir á milli þess rýmis sem umlykur okkur og innra landslags hugsana, minninga og drauma. Skynjun okkar getur verið breytileg frá einu augnabliki annars þar sem hún stjórnast af flóknu samspili innri og ytri veruleika. Við getum því upplifað augnablikin sem stutt eða löng, snögg eða hæg.  

Það sem aðgreinir rödd og ræðu í þögn er efniskenndin eða hljóðbylgjurnar sem ferðast um í rýminu. Þegar ég tala upphátt við sjálfa mig beini ég athyglinni að munni, tungu og niður eftir vélinda. Ef ég horfi á eitthvað í fjarska og nota raddböndin samtímis flöktir athyglin milli þess sem ég sé og þess sem ég segi, frá munni yfir til augnanna. Þegar ég tala við sjálfa mig í hljóði getur radíus athyglinnar verið margbreytilegur, allt frá því að dvelja í líkamanum yfir í skynjun rýmisins allt í kring. Athyglin er ekkert endilega bundin við líkamann líkt og þegar ég beiti röddinni, heldur er hún mun frjálsari og getur ferðast hratt um rýmið sem umlykur mig. Þegar ég hugsa flöktir athyglin oft á milli þess sem ég segi, til þess sem ég skynja frá umhverfinu og þaðan á slóðir ímyndunaraflsins.  

Ég velti fyrir mér hvernig hreyfing athyglinnar ferðast á milli umhverfisins og hugsana, þessu samtali hugsana við umhverfið. Ég hef verið undir áhrifum tímahugtaks (e. duration) franska heimspekingsins Henri Bergson (1859-1941) og skilgreininga hans á því hvernig athyglin færir sig frá einu augnabliki til annars. Ég hef þróað aðferðir í hreyfimyndum mínum þar sem ég kanna flökt athyglinnar með áherslu á að kalla í senn fram tilfinningu fyrir líkama og umhverfi. Ég staðset áhorfandann inni í huga aðalflytjandans í hreyfimyndinni, í stað þess að fylgst sé með honum út frá ytra sjónarhorni eins og þekkt er úr kvikmyndum.  

Ég trúi því að taktur sé manninum náttúrulegur og að þess vegna er fólk almennt hrifið af tónlist og taktföstum dansi. Náttúrulegar hreyfingar eins og að ganga eða klappa eru rytmatískar, andadrættir eru taktfastir og líffæri okkar hafa sinn eigin slátt. Jörðin þenst út og dregst saman eftir hægum rytma. Í vinnuferlinu hef ég verið að kortleggja ólíka slætti út frá líkamshreyfingum ásamt ólíkum rytma í hreyfingum frá umhverfinu.  

Flökt, meistaraverkefni mitt, er hreyfimynd sem skiptist í fjóra þætti: 1) hugsanarúm, 2) hugteikn, 3) upplausn og 4) agnir. Formgerð verksins byggir á sónetu nr. 2 eftir Chopin. Inntak verksins tengist sónötunni ekki að öðru leiti.