„Hvað heitir þetta þegar allir fara að kjósa?“

 

Myndlæsi, lýðræði og hugtakaskilningur

 
Myndlæsi hefur verið skilgreint sem sú færni í að draga merkingu eða þekkingu frá myndum og geta tjáð sig myndrænt.
 
Lokaverkefnið mitt fjallar um hvað kennsla í myndlæsi hefur fram að færa og hvernig hún tengist grunnþáttum menntunar samkvæmt Aðalnámskrá.
 
Til þess að svara því kannaði ég hvernig form, litir og tákn hafa áhrif á upplifun okkar á myndum. Einnig kannaði ég hvernig myndir geta hjálpað okkur að skilja eigin samtíma, ólíka menningarheima og gert okkur víðsýnni og gagnrýnni.
 
Hannað var námsefni í myndlæsi með því markmiði að auka þekkingu nemenda á tæknilegum atriðum myndlæsis og þjálfa nemendur í að skoða listaverk með markvissum og gagnrýnum hætti.
 
Ég kenndi námsefnið í fimm nemendahópum og notaði aðferðir starfendarannsókna til þess að meta árangur þess. Gögnin sem ég greindi voru dagbókarfærslur, verk nemenda ásamt myndgreiningarverkefnum nemenda.
 
Helstu niðurstöður voru þær að flestum nemendum gekk vel að tileinka sér tæknilegar hliðar námsefnisins. Það er mín ályktun að markviss kennsla í myndlæsi geti því aukið hæfni nemenda í verklegri vinnu og þannig gert þá hæfari í miðlun og tjáningu á sviðum myndlistar.
 
Hins vegar áttu margir nemendur í erfiðleikum með að greina myndir út frá sjálfum sér eða samfélagslegum aðstæðum. Í svörum nemenda við spurningum kom í ljós að talsvert vantaði upp á hugtakaskilning nemenda.
 
Á meðan kennslu stóð spruttu hins vegar upp líflegar og fræðandi umræður um samfélagsleg málefni. Einnig tel ég að myndlæsi geti verið góð leið til að auka orða og hugtakaskiling nemenda.
 
Út frá því sem ég upplifði í kennslunni tel ég að kennsla í myndlæsi sé gagnleg leið til þess að efla siðferðisþroska, víðsýni og lýðræðislega hugsun nemenda. Það er því mitt mat að myndlæsis kennsla tengist öllum grunnþáttum menntunar.
 
 
Magnús Dagur Sævarsson
dagursudden [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Ingimar Ólafsson Waage og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
2018