Tónlist-Tækni-Hlustun
Um áhrif nútímatækni á tónlistarhlustun mannsins

 
Tónlist hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda.
 
Maðurinn flytur og hlustar á tónlist og hún hefur mótandi áhrif á samfélag og einstaklinga á hverjum tíma. Tónlistin er órjúfanlegur hluti af samfélagi manna um heim allan.
 
Í þessari ritgerð er spurt hvernig tónlistarhlustun hafi breyst með tilkomu hljóðupptökutækninnar og henni svarað með því að taka hugtökin tónlist, hlustun og tækni til nánari skoðunar. Þar sem að tónlist hefur mótandi áhrif á samfélag og einstaklinga er mikilvægt að gera sér grein fyrir eðli hennar og áhrifum.
 
Dýpri heimspekilegur skilningur á tónlist getur leitt til markvissari tónlistarflutnings og –hlustunar sem og tónlistarkennslu og -miðlunar.
 
Markmið ritgerðarinnar er að varpa fræðilegu ljósi á uppruna og eðli tónlistarinnar, á það hvernig við hlustum á tónlist og hvaða áhrif tæknin hefur á tónlist og hlustun.
 
Leitast er við að varpa ljósi á viðhorf formæðra okkar og – feðra til tónlistarinnar og hvernig hún var notuð til þess að göfga manninn á líkama og sál með tónlistarþerapíu. Rýnt er það í hvernig við hlustum á tónlist auk þess sem nokkrar samtímarannsóknir skoðaðar með tilliti til líkamlegra og sálrænna áhrifa sem tónlistin hefur.
 
Að lokum er sjónum beint að hljóðupptökutækninni en hún hefur haft mikil áhrif á tónlistarmenningu okkar, bæði flutning og hlustun, allt frá því Edison hannaði fyrsta grammófóninn þar til snjalltæknin kom til sögunnar. 
 
Leiðbeinandi: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
2018