Fyrir hverja er námskeiðið: Námskeiðið hentar listamönnum og kennurum sem vilja nýta sér hugmyndir um læsi í eigin listköpun eða kennslu/ miðlun. Skyldunámskeið í meistaranámi í listkennslu. 

Námskeiðið er tvískipt, annars vegar fræðileg nálgun á læsi og hins vegar verklegar tilraunir með möguleika starfænna miðla í listkennslu. Á námskeiðinu glíma nemendur við hugtökin læsi, sköpun og samskipti, ekki síst með tilliti til merkingar, túlkunar og skilnings. Hvað gæti til að mynda falist í hugtakinu samsköpun (samskipti + sköpun = samsköpun) þegar fólk skrifar texta eða les hann?

Nemendur bera einnig saman hefðbundið læsi og nýlæsi (miðlalæsi, víðlæsi) og velta fyrir sér hvers eðlis hið síðarnefnda sé og hver þáttur þess geti verið í námi og starfi. Jafnframt rannsaka nemendur tjáningarform þar sem fleiri en eitt táknkerfi eða mál koma við sögu, t.d. leikrit eða lifandi myndir, og huga að sérstöðu þeirra og tjáningarmætti. Þeir huga að samvirkni þátta í slíkri miðlun eða listsköpun, t.d. tengslum mynda og prentmáls í teiknimyndasögum eða tengslum tals, tónlistar og hljóðmyndar í útvarpsefni.

Í seinni hluta námskeiðsins rannsaka nemendur möguleika kviku, hljóðs og ljósmyndunar til notkunar í kennslu þar sem þeir nýta sér hugmyndir um læsi. Í hverri einingu er tekin fyrir skissuvinna, lýsing, klipping, hljóðvinnsla, eftirvinnsla, frágangur og framsetning. Nemendur vinna verkefni sem þeir tengja við kennslufræðilegar áherslur sínar.

Námsmat: Verkefnaskil.

Kennari: Björgvin Ívar Guðbrandsson.

Staður og stund: Laugarnes. Miðvikudagar kl. 9.20- 12.10.

Tímabil: 30. ágúst- 18. október. 

Verð: 73.500 kr. (án eininga) / 91.800 kr (með einingum)

Forkröfur: BA. gráða eða annað sambærilegt nám. 

Nánari upplýsingar: Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Listkennsludeildar. olofhugrun@lhi.is / 520 2409