Fyrir hver er námskeiðið: Námskeiðið er opið fólki með myndlistarmenntun sem vill sækja sér símenntun. Skyldunámskeið í BA námi í myndlist.
 
Í námskeiðinu eru myndlistarverk skoðuð í kynlegu ljósi og fjallað um kenningalegan grundvöll kynjafræða og þverfaglegt inntak þeirra. Leitast er við að greina hvernig hugmyndir um kyngervi hafa áhrif á listsköpun jafnt sem umræðu og skrif um myndlist. Birtingarform og merking kyngervis í tungumáli, samfélagi og menningu eru einnig greind með áherslu á staðalímyndir og/eða uppbrot þeirra í afstöðu og verkum listamanna.
 
Stuðst er við hugmyndir femínista og hinsegin fræða til að afhjúpa áhrif kyngervis í verkum sumra listamanna sem hliðra staðalímyndum kven- og karlleika og skapa usla í ríkjandi orðræðu og kynjakerfi Vesturlanda. Einnig er fjallað um listheiminn út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og kynntar rannsóknir á margbreytilegum birtingarmyndum kynjamisréttis í samtímanum.
 
Námsmat: Verkefni og ritgerð.
 
Kennari: Aðalheiður L. Guðmundsdóttir.
 
Staður og stund: Laugarnes, þriðjudagar kl. 10.30 - 12.10.
 
Tímabil: 9. jan. til 20. mars 2018.
 
Einingar: 4 ECTS.
 
Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara.
 
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.
 
Verð: 49.000 kr. (án eininga) – 61.200 kr. (með einingum).
 
Forkröfur: Stúdentspróf.
 
Nánari upplýsingar: Sindri Leifsson, verkefnastjóri myndlistardeildar: sindrileifsson [at] lhi.is