Í gegnum líkama okkar og skynfæri könnum við heiminn. Við lærum að þekkja umhverfi okkar í gegnum virka athöfn. Í þessari könnun er líkaminn miðjan í veruleika hvers og eins. Hann er „hér-ið“ eða sá viðmiðunarpunktur sem allir skynjaðir hlutir standa í tengslum við. Samkvæmt hugmyndum fyrirbærafræðinnar er líkaminn til staðar í sérhverri reynslu. Hann er ekki skermur milli okkar og heimsins, heldur forsenda veru okkar í heiminum. En fyrri reynsla okkar, þekking og skoðanir hafa líka áhrif á það hvernig við upplifum umhverfi okkar og metum þá reynslu sem við verðum fyrir. Við erum stöðugt að máta skoðanir okkar við heiminn, bæta við okkur reynslu, skipta um skoðun, endurhugsa, endurmeta. Hlutir og hugmyndir eru á sífelldri hreyfingu. Heimurinn er á sífelldri hreyfingu. Manneskjur eru á sífelldri hreyfingu. Við erum hreyfing. 

Hreyfing er breyting á staðsetningu hlutar með tíma. Einhver kraftur, hlutur eða líkami hefur áhrif á annan hlut þannig að hann færist úr stað. Sambandið milli orsakar og afleiðingar felur í sér að eitthvað hefur áhrif á eitthvað annað. Þó er ekki alltaf ljóst hver upphafspunkturinn er. Enginn veit hvað kom fyrstu hreyfingunni af stað. En þó allt sé á hreyfingu eru ýmis lögmál og kerfi sem stýra. Sum kerfin eru svo stór og flókin að við komum ekki auga á þau. Samt eru þau til staðar. Kannski er óreiða ekki til – bara mismunandi birtingarmyndir stýrandi lögmála? Sambandið milli kyrrstöðu og hreyfingar heillar mig, sem og milli stöðugleika og óstöðugleika, reiðu og óreiðu. En það er hvorki kyrrstaðan út af fyrir sig né heldur hreyfingin, heldur sambandið þarna á milli. Þessi hárfína lína þegar kyrrstæður hlutur byrjar að hreyfast, eða þegar hreyfingin er við það að stoppa. 

Í verkinu í Gerðarsafni er þetta svæði kannað út frá hugmyndinni um opið kerfi. Á sama tíma og verkið er afmarkaður heimur, vísar það út fyrir sjálft sig í önnur kerfi, leikjamenninguna og aukna gagnvirkni samtímans. Það samanstendur af ólíkum þáttum sem mynda samofna heild innan safnrýmisins. Verkið hefur skýr mörk, en er jafnframt opið fyrir utanaðkomandi inngripum og í stöðugu samtali við umhverfið. Þó ég hafi skapað verkið hef ég ekki fullkomna stjórn yfir því. Í krafti sjálfsstýrandi og sjálfsleiðréttandi eiginleika sinna lifir verkið sínu eigin lífi. Nærvera áhorfandans setur af stað atburðarrás sem er undir hverjum og einum komin. Línur, litir og form taka breytingum eftir því hvar áhorfandinn stendur og hverju hann beinir sjónum sínum að. Boðskipti við áhorfandann í gegnum skynjunina er mikilvægur þáttur. Í samspili áhorfanda, rýmis og verks verður merking til. Sú merking er ekki einhlít heldur opin fyrir nýjum túlkunum. Í gegnum eigin skynjun, eigin líkama, eigin veru í verkinu, upplifir áhorfandinn nýjan veruleika.