Ég hef alltaf verið heilluð af dýrum og samskiptum okkar við þau og listsköpun mín ber þess augljós merki. Við virðumst hafa skorið á tengsl okkar við dýraríkið á sama tíma og við manngerum þau í myndmáli og dásömum í frásögnum.  

Teikningin er mín líflína. Minn miðill, þar sem ég fæ útrás fyrir tilfinningar og lífsreynslu. Teikningin er heilandi og nokkurskonar sjálfshjálp sem ég hef tileinkað mér allt frá æsku. Ef ég næ ekki að teikna fyllist hugurinn af stjórnlausri óreiðu en í teikningunni næ ég utan um flæði hugans og óreiðukenndar hugsanir eins og kyrrast þegar á flöt pappírsins er komið. Ég næ einbeitingu í hægu ferli teikningarinnar sem krefst grandskoðunar viðfangsefnisins hverju sinni. Ég einbeiti mér að viðfanginu og tengist því á mun nánari hátt en ég geri með því að ljósmynda það. 

 

Í dag er okkur gjarnt að seilast eftir símanum og taka myndir af því sem höfðar til okkar hverju sinni. Fyrir vikið verður síminn einskonar skjöldur gegn raunveruleikanum. Hann ver okkur gegn áþreifanlegri upplifun og hrekur um leið augnablikið á burt.  Þessar varnir hafa einnig skorið á tengingu okkar manneskjanna við dýrslegt eðlið og við fjarlægjust æ meir aðrar lífverur sem við deilum plánetunni með. 

 

Þó elskum við gæludýrin okkar eins og manneskjur, við gefum þeim nöfn og þau elska okkur til baka. En hvað um hin dýrin á jörðinni? Þessi dýr sem við ræktum eingöngu til manneldis, eða þau sem lifa á ruslinu okkar og búa í veggjunum? Eru þessi dýr verri en gæludýrin okkar? Eiga þau ekki skilið virðingu okkar? Samband okkar við dýr er litað af átökum og misskilningi. Manneskjan skilur ekki dýrin lengur og veit ekki hvernig samskiptum okkar skal hagað eða hvaða merkingu þau bera. 

 

Ég hef nýlega byrjað að nálgast dýr á mun beinskeyttari og persónulegri máta, sem byggist á innsæi og eðlisávísun. Ég safna hræjum sem ég finn á víðavangi, í ruslinu eða utandyra.  Ég vildi komast nær dýrinu, tengjast því á persónulegan hátt. Mér fannst ég þurfa að finna fyrir viðfangsefninu með skynfærunum, finna lyktina af dýrinu og þreifa á feldinum af ást og alúð. 

 

Með þessu móti finnst mér ég geta talað fyrir þau og í gegnum þau, veitt þeim annað líf og viðurkenningu sem einstaklingar á meðal annarra einstaklinga. Þannig get ég með því að spegla sjálfa mig í þeim skapað nýjar minningar fyrir sjálfa mig og ný minni fyrir þau. Ég í þeim og þau í mér. Þegar allt kemur til alls er ég dýr.