Hljóðfæraleikur / söngur

Markmið deildarinnar er að mennta fjölhæfa tónlistarmenn með góða þekkingu, leikni og hæfni í sínu fagi. Þessi markmið koma skýrt fram í hæfniviðmiðum námsbrautarinnar þar sem m.a. segir: „Að loknu námi skal nemandinn hafi tileinkað sér víðtæka þekkingu og skilning á tækni, aðferðum og stíltegundum í tónlist, flutningi hennar og túlkun. Hann hefur öðlast víðtæka reynslu í einleik/einsöng og ýmiss konar samspili. Nemandinn skal hafa innsæi til að nálgast viðfangsefni greinarinnar á einstaklingsbundinn hátt.“

Að loknu bakkalárnámi í hljóðfæraleik og söng fara nemendur oftast utan til frekara náms en aðrir velja meistaranám við LHÍ í kennslufræði eða skapandi miðlun. Námið við deildina er góður grunnur fyrir atvinnuhljóðfæraleikara og söngvara framtíðarinnar. Vegna fjölbreytni í fræði- og valfögum LHÍ, eru þar ýmsir aðrir möguleikar sem nemendum býðst. Til dæmis  störf við útvarp og sjónvarp eða ýmsar aðrar listastofnanir sem tengjast tónlist.

Hóptímar og masterklassar eru vettvangur þar sem nemendum er leiðbeint af öðrum en aðalfagkennurum sínum. Margir íslenskir og erlendir gestakennarar heimsækja deildina á hverju ári. Kammertónlist og samspil eru mikilvægur þáttur í náminu ásamt námskeiðum í barokktónlist, nútímatónlist og sviðsframkomu en að auki fer fram framburðarkennsla á ýmsum tungumálum fyrir söngvara. Einnig eru námskeið í grunnatriðum hljóðfæra- og söngkennslu sem gera námið við deildina enn fjölbreytara og áhugaverðara.

Nafn brautar: Hljóðfæraleikur / Söngur
Nafn gráðu: B.Mus
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár

Frá fagstjóra söngnáms

Söngnámið við LHÍ er framsækið nám í stöðugri þróun og taka nemendur virkan þátt í því að móta námið. 
Áhersla er á valdeflingu, sjáfstæð vinnubrögð og að nemendur verði leiðandi gerendur í náminu. 
 
Nemendur vinna með leiðbeinendum deildarinnar og gestakennurum, innlendum og erlendum, í því skyni að ná góðu valdi á söngtækni og túlkun og öðlast hæfni til þess að vinna á skapandi hátt sem sjálfstæðir listamenn. 
Áhersla er lögð á að nemendur nái góðum tökum á framburði, bæði í íslensku og erlendum tungumálum.  
 
Unnið er markvisst í því að þjálfa leikræna hlið söngsins; að hugur, líkami og rödd séu ein heild þegar kemur að því að tileinka sér innihald verkefnanna. Við þetta styðja fjölmargar aukagreinar svo sem leiklist og hreyfitímar. 
 
Með því að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum innan skólans sem utan hans öðlast nemendur dýrmæta reynslu í að koma fram; hvort sem er á einsöngstónleikum, kirkjutónleikum, með kammerhópum eða í sviðsettum senum úr óperum. Sérstök rækt er lögð við flutning nýrrar tónlistar þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna náið með tónsmíðanemendum og taka  þátt í frumflutningi glænýrra verka.
 
Þóra Einarsdóttir, fagstjóri bakkalárnáms í söng.