Halldóra Sif Guðlaugsdóttir, sem útskrifaðist af fatahönnunarbraut Listaháskóla Íslands síðastliðið vor, mun brátt hefja störf við „women’s wear“-deild Alexander McQueen tískuhússins.

Ég er uppalin í Mosfellsbæ en flutti til Danmerkur eftir menntaskóla og lærði þar kjólameistarann. Ég komst fljótlega að því að mér fannst skemmtilegt að hanna og skapa og vildi því leggja meiri áherslu á það. Því sótti ég um í Listaháskóla Íslands í fatahönnun og lauk þar námi síðasta vor

Við útskrift hvatti Linda Árnadóttir, lektor við Listaháskólann, Halldóru Sif til að sækja um hjá Alexander McQueen. „Ferlið gekk í rauninni mjög hratt fyrir sig. Ég sótti um með því að senda ferilskrá, kynningarbréf og portfolio. Ég fékk svar tveimur tímum seinna um að þeim litist vel á mig. Þau spurðu þá hvort ég kæmist í viðtal hjá þeim í sömu viku. Ég var mætt til London nokkrum dögum síðar með portfolio og skissubækur undir hendinni.“

 

 

Viðtalið gekk vel og var Halldóru samdægurs boðin staða sem „trainee“. „Ég byrja í apríl og mun vinna í hálft ár sem „trainee“ og vonast svo til að fá áframhaldandi samning hjá þeim eftir það. Ég fékk stöðu við kvenklæðnaðardeildina undir yfirhönnuði þar sem heitir Malin Troll. Hún útskýrði hlutverk mitt vel en ég verð með í hönnunarferlinu og hluti af hönnunarteyminu. Ég mun aðstoða við að búa til „mood board“, „color story“ og teikna hugmyndir að línunni,“ segir Halldóra Sif en gaman verður að fylgjast með henni í framtíðinni.