Listaháskóli Íslands hlaut 270.090 evrur í styrk frá Erasmus+ áætluninni fyrir tveggja ára alþjóðlegt samstarfsverkefni síðast liðið haust. Verkefnið ber heitið NAIP: Training Artists Without Boarders og er samvinna sjö háskóla á sviði tónlistar og sviðslista, Íslensku Óperunnar og samtaka tónlistarháskóla í Evrópu (AEC). Tónlistar- og sviðlistadeildir taka þátt í verkefninu, sem er stýrt af Listaháskóla Íslands.

Markmið verkefnisins er að þróa námsumhverfi lista á háskólastigi í gegnum þverfaglegt samtal milli tónlistar og sviðlista. Áhersla er lögð á að efla áræði og dug nemenda til að gerast leiðtogar á sínu sviði, nálgast nýja áheyrendur og þróa nýjar aðferðir í sköpun og flutningi, í gegnum einstaklingsmiðað nám með áherslu á þverfagleg samstarfsverkefni.

Samvinna milli listgreina verður nýtt sem tæki til þess að taka upp nýbreytni í kennsluháttum, en bæði kennarar og nemendur með bakgrunn í tónlist og sviðslistum taka þátt í verkefninu, ásamt hagsmunaðilum úr atvinnulífinu.

Vinnuhópar eru starfræktir á sviði þverfaglegrar samvinnu listgreina, aðferðafræði við leiðbeiningu (e. mentoring) á sviði lista, ásamt fjarnámsaðferðum í listnámi og listsköpun í gegnum netið. Verkefnið mun einnig fela í sér hraðnámskeið þar sem nemendur og starfsfólk allra samstarfsaðilanna hittast og vinna saman, ásamt starfsþróunarnámskeiðum fyrir kennara.

Fyrsta hraðnámskeið nemenda verður haldið í Reykjavík í mars, en þá munu nemendur hittast og skoða aðferðir við listsköpun í gegnum netið. Starfsþróunarnámskeið kennara verður haldið í Svíþjóð í maí og mun það einblína á þverfaglega samvinnu ólíkra listgreina. Í ágúst munu svo kennarar og nemendur bæði úr tónlistum og sviðslistum hittast í Hafnarfirði á 10 daga löngu námskeiði.