Laugardaginn 21. október heimsóttu nemendur og starfsfólk Listaháskólans átta kosningaskrifstofur í Reykjavík með það að markmiði að vekja athygli á alltumlykjandi húsnæðisvanda skólans. Leysa þarf bráðavanda sviðslistadeildar strax og koma þarf skólanum undir eitt þak 2022.
 
Nemendur lásu upp ávarp og gáfum við flokkunum múrbrot að gjöf sem molnaði úr þakskeggi Sölvhólsgötu fyrir nokkrum misserum.
 
Við heimsóttum Pírata, Bjarta framtíð, Sjálfstæðisflokk, Samfylkinguna, Viðreisn, VG, Miðflokkinn og Framsóknarflokkin. Hvarvetna var okkur tekið vel og undirtektir með okkar málstað voru hvarvetna góðar.

Ávarp nemanda:

"Ég er nemandi í Listaháskóla Íslands. Síðan ég hóf nám hef ég fengið faglega leiðsögn frábærra kennara skólans, víkkað sjóndeildarhring minn gífurlega þegar kemur að listsköpun og auðvitað kynnst vonarstjörnum menningarlífs á Íslandi, sem stunda nám með mér. Ég er satt að segja mjög ánægð með skólann minn og námið – en ég er á sama tíma gífurlega óánægð með allt það sem snýr að húsnæði okkar og aðbúnaði.

Ég borga 530.000,- krónur í skólagjöld á ári. LHÍ er eini háskólinn á Íslandi á sviði lista á meðan nemendur sem hyggjast læra lögfræði, svo dæmi sé tekið, hafa úr nokkrum háskólum að velja, m.a. skólum sem ekki innheimta skólagjöld. Ég vil stunda listnám, og fá til þess sömu tækifæri og þeir sem vilja læra lögfræði, sagnfræði eða verkfræði. Ég vil gera það við viðunandi aðstæður.

Þegar Listaháskólinn var stofnaður árið 1999 var eitt helsta markmiðið að koma öllum listgreinum undir eitt þak. Með því átti að leysa húsnæðisvanda þeirra listaskóla sem sameinaðir voru í einum þverfaglegum háskóla og skapa góðan rekstrargrundvöll með þeirri samlegð sem fælist í sameiginlegum rekstri. Undir einu þaki.

18 árum seinna hefur húsnæðisvandinn ekki verið leystur og er hluti starfseminnar enn í því bráðaðbirgðahúsnæði sem hún var við stofnunina. Skólinn er í dag rekinn á fimm mismunandi stöðum. Hjá skólanum eru því 5 móttökur, 5 ræstingateymi, 4 mötuneyti, 2 bókasöfn og svo framvegis. Varlega áætlað kostar þetta óhagræði skólann um 50 milljónir á ári. En þetta er ekki bara óhagkvæmt fyrir rekstur skólans heldur óhentugt fyrir okkur nemendur: Við viljum geta átt í samstarfi okkar á milli, milli deilda og listgreina. Undir einu þaki.

Fjórar af fimm byggingum skólans eru á tímabundnum leigusamningi, fyrir utan það að nemendur sviðslistadeildar stunda nám í ónothæfu húsnæði við Sölvhólsgötu sem er á skilgreindum niðurrifsreit. Tveimur hæðum þess húss hefur reyndar þegar verið lokað. Heilbrigðiseftirlitið mat það nefnilega sem svo að andrúmsloftið á þessum hæðum væri beinlínis skaðlegt heilsu nemenda og starfsfólks.

Í sumum þessara bygginga er aðgengi fyrir fatlaða einfaldlega ekki til staðar, og með því brýtur skólinn lög á hverjum degi.

Á vormánuðum skipaði fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra nefnd sem skyldi skoða framtíðarstaðsetningu Listaháskólans, hefja frumathugun og framkvæma húsnæðisþarfagreiningu. Verkið hefur þó hvorki ratað í fjárlög né fjármálaáætlun ríkisins.

Í raun má segja að framtíð Listaháskólans sé í meiri óvissu nú en fyrir 20 árum því samningar um leiguhúsnæði eru að renna út og lausnir ekki í hendi.

Stjórnmálamönnum er tamt að tala um hve mikilvægt er að byggja upp á traustum grunni. Um það erum við sammála. Traustur grunnur er mikilvægur þegar byggja á upp til framtíðar. Þetta þekkjum við sem stundum nám og störfum í Listaháskólanum vel, en ekki af góðu. Við þekkjum hversu erfitt það er að byggja upp til framtíðar þegar undirstöðuþættir á við húsnæði eru ekki traustir.

Í tilefni af heimsókn okkar viljum við færa ykkur þennan stein. Stein sem molnaði úr húsi Listaháskólans við Sölvhólsgötu og lýsir ástandinu hvað best. Við vonumst til að hann muni minna ykkur áfram á hversu mikilvægt er að hlúa að háskólanámi í listum og trúum því að þið munið gera allt það sem í ykkar valdi stendur til að koma Listaháskólanum undir eitt þak. "