Ari Jónsson, nemandi á þriðja ári í vöruhönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, hélt erindi á TEDxReykjavík um verkefnið Agari, flösku sem búin er til úr vatni og agar, efni sem unnið er úr rauðþörungum og er tilraun til að stemma stigu við einu af stærstu umhverfisvandamálum samtímans, plastmengun.
 
Þróun verkefnisins hófst í áfanga á fyrsta ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og í viðtali við mbl.is segir Ari að hann hafi byrjað á að gera tilraunir með tvö ólík efni, fyrst vatn og gelatín og síðar vatn og agar. „ Þegar ég var byrjaður að gera til­raun­ir með það ákvað ég að reyna að búa til vatns­flösku sem væri búin til úr vatni, en Ag­ari er yfir 90% vatn. Það var síðan ekki fyrr en í því ferli sem ég fór að kynna mér bet­ur vanda­mál­in sem plast­meng­un er að valda í heim­in­um,“ sagði Ari í sama viðtali.
 
Flaskan er þannig úr garði gerð að hún heldur sköpulagi sínu aðeins á meðan hún gegnir tilgangi sínum. Um leið og búið er að tæma flöskuna af vatni fer efnið að brotna niður án þeirra skaðlegu umhverfisáhrifa sem notkun og framleiðsla á plasti hefur í för með sér.
 
Í fyrirlestri sínum fyrir TEDx áréttar Ari að varan sé enn langt frá því að komast í fjöldaframleiðslu og hvetur fólk beinlínis til þess að færa sér hönnun sína í nyt og hyggst útbúa einfalda og aðgengilega verkferla til að auðvelda aðgengi almennings að hönnuninni.
 
 
Mynd við frétt, Ben Gruber.