Massimo Santanichhia hefur verið ráðinn fagstjóri við námsbraut í arkitektúr
 
Massimo er arkitekt sem vinnur þvert á faggreinar. Hann hefur kennt við hönnunar- og arkitektúrdeildina frá 2004 og gegnir nú stöðu dósents í arkitektúr. Áherslur hans, bæði í starfi sínu sem kennari og arkitekt, hafa einblínt á kerfishugsuns og arkitektúr.  Hann hefur sérstaklega beint sjónum sínum að því hvernig smávægilegar breytingar í arkitektúr og hönnun geta haft mikið að segja fyrir almannahagsmuni, hlúð að kerfislægum breytingum, samfélaginu og umhverfinu til góðs, og lagst á sveif með þeim lausnum sem stærstu áskoranir mannkynsins - loftslagsbreytingar og félagslegur ójöfnuður - kalla á. 
 
Hann hefur einnig beitt kerfishugsun til þess að rannsaka nýjar kennsluaðferðir í arkitektúr á Norðurslóðum, og sérstaklega í íslensku samhengi. Massimo er með þrjár meistaragráður, MArch frá IUAV Istituto Universitario di Architettura di Venezia; MA í Housing and Urbanism frá AA Architectural Association, School of Architecture í London; og MSc-gráðu í Regional Urban Planning Studies frá LSE London School of Economics and Political Science. Rannsóknarsvið hans eru meðal annars: kerfishugsun, arkitektúr, borgarfræði, hönnunarhugsun, hönnun í þágu samfélagsins, borgarhönnun og þróun, og kennslufræði arkitektúrs.
 
Við bjóðum Massimo hjartanlega velkominn til þessara nýju starfa við hönnunar- og arkitektúrdeild.