Mæna er tímarit um hönnun á Íslandi sem gefið er út árlega af hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Þetta er áttunda árið sem Mæna er gefin út. Lögð er áhersla á fræðilega umræðu um þá ótal þræði sem snerta hönnuði og að vera vettvangur gagnrýnna umfjallana. Áhersla er einnig lögð á að tengja Listaháskóla Íslands við aðrar akademískar faggreinar sem og atvinnuumhverfið. Auk þess er lögð áhersla á líflegar hugmyndir og skoðanaskipti þvert á aðrar greinar þar sem við á. Mæna hvetur því til þverfaglegra rannsókna í tengslum við hönnun.

Markmið Mænu er þá einnig að þenja mörk grafískrar hönnunar með tilraunastarfsemi og tilraunakenndum samræðum. Leitast er við að ögra starfandi sérfræðingum og fræðafólki, bæði innan greina hönnunar og utan. Þar að auki er horft til hverskyns tækniþróunnar og áhrif hennar á hönnun, á meðan leitast er við að skoða tengsl hönnunar við félagsleg- og siðferðisleg málefni og í samhengi við sjálfbærni og umhverfisvernd. Mæna er ávalt unnin út frá ákveðnu þema og í ár er það „ófullkomleiki“. Þemað endurspeglast í innihaldi, uppsetningu og útliti tímaritsins. Sýning á efni og innihaldi Mænu verður í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, meðan á HönnunarMars stendur. 

Að þessu sinni skrifa tólf höfundar í Mænu greinar eða hugleiðingar. Helmingur þessara höfunda eru fyrrverandi nemendur skólans – sem útskrifuðust á síðasta ári – sem gera nú grein fyrir rannsóknum sínum og vangaveltum. Af þeim má nefna Björn Steinar Blumenstein sem skrifar um and-kapítalíska hönnun, Védísi Pálsdóttir sem skrifar um litinn hvítan, Dóru Jóhannessdóttir sem skrifar um sögu prentpunktsins, Jónbjörn Finnbogason sem skrifar um Glitch og síðast en ekki síst þær Dagnýju Harðardóttir, Ástu Márusdóttir og Ástu Þórðardóttir sem skrifa um rými sorps út frá arkitektúr og hönnun ásamt mannfræðinemanum Regínu Márusdóttur. Þá skrifa einnig þrír strafsmenn við deild hönnunar- og arkitektúr efni fyrir blaðið ásamt öðrum. 

Nítján útskriftarnemar á þriðja ári í grafískri hönnun sjá um hönnun blaðsins. Mæna er tilraunakennd og óhefðbundin í ár og stjórnaðist útlitið að miklu leyti á því hversu margir komu að gerð hennar þetta árið. Tekin var sú ákvörðun að vinna með óvissu og lagskiptingu.

Ritstjórn er í höndum Bryndísar Björgvinsdóttur, aðjúnkts, Lóu Auðunsdóttur, aðjúnkts og Birnu Geirfinnsdóttur, fagstjóra og lektors. Arnar Freyr Guðmundsson er listrænn stjórnandi. Greinarhöfundar eru meðal annarra Massimo Santanicchia, dósent í arkítektur við Listaháskóla Íslands, Linda Björg Árnadóttir, lektor í fatahönnun, Dóra Haraldsdóttir, Margrét Weisshappel, Björn Steinar Blumenstein og Jónbjörn Finnbogason.

Í Mænu er lögð áhersla á fræðilega umræðu, líflegar hugleiðingar og skoðanaskipti. Hópurinn vann Mænu í samstarfi við prentsmiðjuna Odda og Gunnar Eggertsson hf. Á vefsíðunni mæna.is má skoða eldri útgáfur en sú nýjasta fer inn á vefinn við útgáfuna 23. mars.

Útgáfuhóf Mænu hefst klukkan 20:00 fimmtudaginn 23. mars.
Viðburður á Facebook