Vakin er athygli á Kveikju, nýjum vikulegum lagalista sem víðfeðmur kennarahópur við tónlistardeild LHÍ mun deila með forvitnum tónlistargrúskurum næstu vikur og mánuði. Tónlist sem hefur hrifið og heillað, örvað og innblásið, tónlist úr öllum áttum og frá ólíkum skeiðum tónlistarsögunnar.

Gunnar Ben, aðjúnkt við tónlistardeild LHÍ, fagstjóri Skapandi tónlistarmiðlunar og hljómborðsleikari Skálmaldar, ríður á vaðið með einkar hressilega blöndu af stefnum og straumum; serbneskan sígaunaslagara, frumbyggjatónlist frá Eyjaálfu, færeyskt þunkarokk, portúgalska tregatónlist, frumlega útfærslu hins kanadíska Venetian Snares á Billie Holiday, bandarískan mínímalisma af bestu gerð og margt, margt fleira. 

Eldheitur ástaróður sveitarinnar Moses Hightower til kolsvartrar kaffibaunar slær upptaktinn að lagalista Gunnars Ben og síðan koma kveikjurnar, ein af annarri í kjarngóðum glundroða.  Njótið vel.