Haustútskrift Listaháskóla Íslands fór fram 29. september s.l. Alls útskrifuðust 17 nemendur að þessu sinni.
 
Hér er ávarp rektors frá útskriftinni.
 
/
 
Kæru gestir, kæru útskriftarnemar!
 
I
Fyrir örfáum dögum síðan rakst ég á spjall við íslenskan listamann, sem sagði m.a. að hún áliti vinnuaðferð sína vera þekkingarleit; drifna áfram af einskonar forvitni. Hún er rannsókn á launhelgum sannleikans, sagði viðkomandi: Tekur samt engan endi, því það finnst ekkert svar. Og jafnvel þótt svar fyndist væri það hvort sem er svo langt handan okkar skilnings.
 
Í þessum orðum kjarnast einn megintilgangur listarinnar; að leiða okkur inn í það sem alla jafna er handan okkar skilnings. Tilgangur sem erfitt getur verið að réttlæta í samhengi hversdagsins, erils lífsbaráttunnar, samfélagsumræðunnar eða stjórnmálanna. Ef horft er til stóru myndarinnar eða ástands mannsandans gegnir þó öðru máli, því þar er áhrifamáttur listanna sterkastur; í hinu sammannlega minni sem hefur gríðarleg áhrif í framrás áranna – jafnvel aldanna – samanborið við dægurþras líðandi stundar.
 
Eigi að síður höfum við tilhneigingu til að máta okkur við þá mælikvarða sem eru hvað þrengstir hverju sinni; almenningsálitið, samferðafólk, vinnuumhverfi, búsetusvæði, þjóðerni. Við gleymum því iðulega að það er tíminn sem fellir mikilvægustu dómana. Það er tíminn sem sker úr um hverju við komum til leiðar, hvað lifir og hvernig við settum mark okkar á heiminn.
 
II
Í dag eruð þið, útskriftarnemar, á þeim krossgötum þar sem árangur mikillar vinnu, áræðis og hugmyndafræðilegrar innspýtingar fleytir ykkur inn í óræða vegferð. Sú þekking sem þið öfluðuð ykkur við Listaháskóla Íslands á að reynast ykkur veganesti til lengri tíma litið – hún á að vera sá jarðvegur sem þið nærið til að blómga þann menningarakur sem þið viljið rækta með ykkar listsköpun.
 
Í því samhengi skulum við ekki gleyma þeirri ögrun sem felst í því að halda meginhlutverki lista utan þess að vera fyrst og fremst markaðsvara. Allt frá því á sjötta áratugnum hefur ýmislegt úr heimi listanna verið nýtt til markaðssetningar í neyslusamfélaginu. Vitaskuld eru listir markaðsvara í einhverjum skilning, en þeirri staðreynd má ekki blanda saman við meginhlutverk þeirra. Listir eru nefnilega eitt heilbrigðasta  og mest ögrandi mótvægi við ríkjandi hugmyndir og stöðnuð viðmið sem við höfum yfir að ráða í okkar markaðsmótaða samfélagi. Listir leiða okkur inn í óvæntan reynsluheim, heim sem gerir okkur fær um að vera gagnrýnin í hugsun, draga venjur, hefðir og viðmið í efa, samfélaginu öllu til framdráttar.
 
Þið sáið sem sagt og “uppskerið á akri óvissunnar”, eins og Páll Skúlason orðaði það, með ykkar gagnrýnu hugsun. Það er ykkar að tryggja að sú hugsun sé ábyrg og hugsi “um heiminn af heilindum og festu og reið[i] sig ekki fyrirfram á skoðanir eða fullyrðingar sem hún veit ekki hve áreiðanlegar eru”.
 
III
Það er vert að hafa í huga að hefðbundin söguskoðun gerir iðulega ráð fyrir því að ein leið til að ná settu markmiði sé réttari en aðrar. Slík skoðun einfaldar vissulega hlutina en er að sama skapi þröng og sjálfhverf. Í Listaháskólanum reynum við af fremsta megni að rækta samræðu; víðsýni til að átta sig á því að hægt er að fara margar leiðir og að sjónarhornin eru ólík.
 
Á lokasprettinum fram að útskrift hafið þið því ekki einungis þurft að tileinka ykkur sögu ríkjandi hefðar, heldur einnig að rannsaka tengslin við það sem hefðin útilokar eða hafnar. Þannig hafið þið ræktað með ykkur þessa gagnrýnu hugsun og vonandi spurt allra þeirra spurninga sem nauðsynlegt er að spyrja, jafnvel þótt ekki finnist viðhlítandi svör, eins og listamaðurinn sem ég vék að áðan lýsti.
 
Þekkingarleitinni er svo sannarlega ekki lokið – rannsókn ykkar á launhelgum sannleikans er rétt að hefjast.
 
IV
Finally just a few words in English since we are today celebrating the graduation of the first cohort of the international master’s programme in stage arts within the IAA. The students that were brave enough to embark on that journey with us, have of course embraced many unforeseen challenges and hard work, with admirable courage. Their graduation is a signpost on a new path, which we are all proud of.
 
I would like to congratulate you all on this very special day, - og jafnframt óska ykkur hinum öllum innilega til hamingju með áfangann!