Goddur, Guðmundur Oddur Magnússon, hefur starfað lengi fyrir hönnunar- og arkitektúrdeild og gegnir nú rannsóknarprófessorstöðu við Listaháskóla Íslands. Hann fékk á dögunum úthlutað stórum rannsóknarstyrk frá RANNÍS, rúmum sextán milljónum til tveggja ára, vegna verkefnisins Sjónarfur í samhengi: notkun, myndmáls í prentsögu Íslands frá 1844-1944 en þar er um að ræða viðfangsefni sem lengi hefur verið eitt af hans helstu hugðarefnum.
 
Spurður út í forsögu verkefnisins svarar Goddur: „Verkefnið er hluti rannsóknarstarfa sem hófust seint á síðustu öld. Upphafið má að hluta rekja  til þess að á árunum 1995 til 2001 vann ég nánast á hverjum degi með Birgi Andréssyni en „íslenskt myndmál“ var okkur hugleikið.“
 
picture-15688-1462278470.jpg
 
Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins er að safna saman, greina og flokka myndræna framsetningu í prentuðu efni á tímabilinu 1844-1944 og setja hana í sögulegt samhengi. Tilgangurinn er að greina áhrif hönnunar á myndmál, tengingu myndmáls og texta við samfélagslega þætti eins og þjóðareinkenni, sjálfstæðisbaráttu og stofnun lýðveldis. Kjarni verkefnisins eru gerðir og myndrænn uppruni prentmyndamóta sem og myndræn þróun prentunar vegna áhrifamátts fjölföldunar. Myndefni og myndmál í fjölfölduðu efni eru rannsóknarviðfangið, allt frá einblöðungum til myndmáls hins opinbera. Rannsóknin er samvinnuverkefni Listaháskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Hönnunarsafns Íslands. 
Goddur segir rannsóknarstyrk af þessu tagi afar þýðingarmikinn: „Styrkurinn er í mínum huga opinber viðurkenning á því að rannsóknarstarf fari fram við LHÍ og það í sjálfu sér hefur mikla þýðingu fyrir okkur akademíska starfsmenn skólans. Þetta rannsóknarstarf mitt hófst fyrir meira en 20 árum þannig styrkurinn hefur fyrst og fremst þá þýðingu að hann gerir mér kleift að ganga frá ævistarfi og koma því frá mér.“
 
Á næstu tveimur árum er reiknað  með bókaútgáfu og sýningum í tengslum við verkefnið og fyrsta bindi Íslenskrar myndmálssögu kemur út síðar á þessu ári. En afhverju er þetta mikilvægt rannsóknarefni? „Beiting myndmáls og myndmálslæsi skiptir alltaf meira og meira máli vegna mikillar myndvæðingar fjölmiðla og framsetningu á þekkingu í myndrænu formi,“ segir Goddur og bætir við: „Þessi rannsókn beinir sjónum að myndmálsarfi okkar og hjálpar okkur að skilja hvaða mátt myndmál hefur.“
 
Alls barst 181 umsókn um verkefnisstyrki til Rannís og voru 33 styrktar eða um 18% umsókna. Á vef Rannís má sjá upplýsingar um allar úthlutanir.