I
Í aðdraganda þingkosninga sl. haust áttu stjórnendur Listaháskólans fundi með þingmönnum úr öllum þeim flokkum sem komust á þing. Auk þess að fara yfir fjárhagsstöðu og afleiðingar niðurskurðar sem háskólastigið í heild sinni hefur glímt við, var farið sérstaklega í saumana á því aðstöðuleysi sem Listaháskólinn hefur búið við allt frá stofnun. Markmiðið var að efna til vitundarvakningar um það hvernig langvarandi aðstöðuleysi, óviðunandi og jafnvel heilsuspillandi húsnæði, takmarkað aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra er farið að setja starfsemi skólans mjög alvarlegar skorður.
 
Í ljósi þess að allir flokkar lýstu skilningi á því að við slíkt ástand yrði ekki búið lengur, þar með taldir þeir flokkar sem nýverið tóku við stjórnartaumunum, gerir Listaháskólinn ráð fyrir því að samtal við ný stjórnvöld hefjist sem fyrst um framtíðaruppbyggingu er hæfi skólastarfinu.
 
II
Húsnæðisvandi skólans er fyrirferðarmikill í skólastarfinu, enda stöðugt verið að leita leiða til að fleyta starfseminni áfram í ögrandi aðstæðum. Sem dæmi má nefna að nú eru sérfræðingar að vinna að úttekt á húsnæðinu í Sölvhólsgötunni þar sem tvær deildir, tónlistardeild og sviðslistadeild eru til húsa. Grunur leikur á að þar hafi orðið heilsuspillandi skemmdir vegna viðvarandi raka eða leka.
 
Húsið er komið til ára sinna og sú aðstaða sem þar er var aldrei hugsuð nema til bráðabirgða. Sá langi tími sem slíkt bráðabirgðaástand hefur varað, vinnur vitaskuld ekki með okkur. Skýrslu með niðurstöðum úttektarinnar er að vænta innan skamms og verða viðeigandi ráðstafanir gerðar í kjölfarið ef skýrslan gefur tilefni til.
 
III
Um þessar mundir er enn á ný að hefjast stefnumótunarvinna við Listaháskólann. Stefna áranna 2013 – 2017 hefur skapað góðan grunn til að byggja á og verður vitaskuld höft til hliðsjónar við þá vinnu sem nú fer í hönd, en ný stefna verður kynnt á haustmánuðum.
 
Í stefnumótunarferlinu verður lögð rík áhersla á víðtækt samráð innan skólans við starfsfólk og nemendur, auk þess sem leitað verður til hagaðila utan skólans. Samráðinu er ætlað að stuðla að sem öflugustu samtali um starfsemi Listaháskólans enda er það eitt meginhlutverk slíkrar háskólastofnunar að þjóna samfélaginu með áhrifaríkum hætti fyrir tilstilli þeirrar listsköpunar  og rannsókna sem eiga sér stað í skólastarfinu.
 
Listaháskóli Íslands er einhver öflugasta menningarstofnun landsins, þar sem listsköpun og þekkingaröflun í skapandi greinum mætast í deiglu akademískrar aðferðafræði. Sem háskólastofnun ekki síður en listasmiðja, er LHÍ því undirstaða nýliðunar, grósku og hugmyndafræðilegrar uppbyggingar í íslensku lista- og menningarlífi. Viðgangur skólans varðar því alla þjóðina, sjálfsímynd hennar og orðastað við umheiminn í nánustu framtíð, hvort heldur sem litið er til lista- og menningarlífsins eins og það birtist í okkar eigin þjóðlífi, eða þeirra myndar sem við viljum kynna erlendum gestum og öðrum samfélögum.
 
IV
Að lokum er vert að minna á að samhliða stefnumótunarvinnunni, er verið að leggja síðustu hönd á endurskilgreiningu á starfsumhverfi stoðsviða skólans. Með þeim lokahnykk verður búið að endurskoða starfsumhverfi allra starfsmanna Listaháskólans, því hliðstæðri vinnu við endurskoðun hins akademíska starfsumhverfis er lokið fyrir nokkru.
 
Allt hefur þetta verið unnið með víðtæku samráði við alla hlutaðeigandi. Vitaskuld hafa ekki allar hugmyndir sem fram komu í þessum viðamiklu ferlum fengið brautargengi, enda kannski ekki hægt að láta drauma allra rætast í stórum stofnunum sem þar að auki glíma við krappa fjármögnun. Samt sem áður hafa verið stigin stór skref til framfara og óhætt að fullyrða að heilt yfir ríkir góð sátt yfirgnægandi meirihluta starfsfólks við þær niðustöður – og á stundum málamiðlanir –  sem þessi vinna hefur leitt af sér.
 
 
Tengt efni: