Ávarp rektors – skólasetning
21.08.17.

Kæru nýnemar, aðrir nemendur og ágæta samstarfsfólk,

I

Í síðustu viku var töluvert rætt um klisjur á samfélags- og fjölmiðlum, eftir að málað var yfir sjómanninn með reykjarpípuna á sjávarútvegshúsinu. Málað yfir myndverk sem fáum fannst ástæða til að ræða fyrr en það hvarf. Umræðan fór út um víðan völl og var reyndar mestan part ómerkileg.

Á sama tíma gengu aftur í fjölmiðlaumræðu tveir draugar sem voru hvað mest ógnvekjandi á síðustu öld; kynþáttahatur og kjarnorkuvá. Og það fyrir tilstilli valdamesta stjórnmálamanns í heimi, bandaríkjaforseta, rétt eins og áminning um allt sem úrskeiðist getur farið – jafnvel í framsæknum og upplýstum samfélögum.

Umræðan um veggmyndina af sjómanninum var stormur í vatnsglasi; kynþáttahatrið og hótanir um beitingu kjarnorkuvopna var hins vegar raunveruleg vá fyrir heimsbyggðina alla. Klisjur hvort tveggja, sú fyrsta sértæk og saklaus, hin með skírskotun til heimsins alls og að sama skapi hættuleg.

II

Í okkar örsamfélagi var þessi umræða áminning um það hvaða þátt allar klisjur eiga í upplifun okkar af veruleikanum. Og fyrir okkur hér í Listaháskóla Íslands ekki síður áminning um það að þær eru nánast meðskapaðar listunum; sem tákn, eða myndmál, í vísunum og tjáskiptum. Sem slíkar eru klisjur ekkert síður mikilvægar en hvaða annað verkfæri við listsköpun eða rannsóknir.

Við getum því ekki horft framhjá klisjum eða gömlum tuggum og tengslum þeirra við okkar innri og ytri veruleika. Þvert á móti  þurfum við að horfast í augu við þær til að læra á sjálf okkur. Og þótt umræðan, til að mynda um sjómanninn, virðist lítilvæg, þá hafa algildi klisjanna aðdráttarafl og eru með þeim hugmyndum sem eru hvað mest ræddar hverju sinni.

Hið margtuggna á sér nefnilega bólfestu í huga okkar, hvort heldur litið er til hins sameiginlega minnis eða minnis einstaklinga. Það er samþætt sjálfsmynd okkar og stöðu gagnvart umheiminum – einnig þegar við höfnum því.

Við erum því ekki einungis að glíma við frumleikann og frumsköpunina í námi við listaháskóla, heldur alla söguna og samhengi lífsins við listina. Glíma við þetta margumrædda “ástand mannsandans”.

 

III

“Í listum getum við svo sannarlega fundið okkur - en einnig týnt okkur”, eins og bandaríkjamaðurinn Thomas Merton minnti stöðugt á, en hann var allt í senn skáld, myndlistarmaður og munkur á tímum módernistanna. Við finnum okkur sem sagt og týnum í sömu andránni þegar við njótum lista og skiptir þá engu hver listgreinin er.

Hugsanlega er sú staðreynd ein meginástæða þess að listsköpun hefur verið grunnþáttur í samfélögum allra tíma – og stundum sá eini sem varðveitist. Hún er líka án efa ein ástæða þess að þið eruð hér í dag –  öflugur hópur nýnema –  hópur skapandi einstaklinga sem ætlið ykkur að taka þátt í þeirri deiglu sem Listaháskóli Íslands er.

Hér munið þið tileinka ykkur skapandi ferli, fræði, rannsóknir – og m.a rannsaka klisjurnar. Ekki þó til að viðhalda þeim, heldur þvert á móti til að kynnast eðli þeirra, breyta þeim og afla þannig þeirrar þekkingar sem þarf til að veita þeim mótspyrnu. Því þekking er það alhliða afl sem heimurinn býr yfir, er gengur þvert á alla tíma og manngerð mæri. Slær á þá fordóma og fyrirlitningu er kyndir undir sundurlyndi, en nærir þess í stað skilning og samstöðu.

 

IV

Einn sá listamaður tuttugustu aldar, sem hvað óhræddastur var við að afhelga listina og finna nýja fleti á listrænni tjáningu, Andy Warhol, benti á að að því sé “alltaf haldið fram að tíminn breyti hlutum, þegar raunin er sú að maður verður að breyta þeim sjálfur”.

Warhol, sem reyndar vann mikið með einhverjar sterkustu klisjur neysluhyggju 20. aldar, hafði vitaskuld rétt fyrir sér. Enda geri ég ráð fyrir að viljinn til að vera breytingarafl sé annað meginstef í hjörtum allra sem nema listir; löngunin til að hafa áhrif og móta samtímann. Þið eruð m.ö.o hingað komin til að rannsaka og ögra viðteknum hugsunarhætti og gildum.

Hér við Listaháskóla Íslands munið þið komast að því að með hverjum einasta einstaklingi, með hverri kynslóð og hverri atlögu að því að skilgreina samtímann, er mannskepnan að endurskoða samband sitt við raunveruleikann. Þið munið greina tengsl okkar við umhverfið, náttúruna, trúarleg kerfi, stjórnmál, líkamann, sjálfið og hugmyndafræði líðandi stundar. Þessi tengsl sitja kannski stundum á mörkum klisjunnar, en eru eigi að síður undirseld stöðugri endurnýjun, sem hægt er að sjá stað í öllum listformum og rannsóknum þeim tengdum.

 

V

Það er því eftirvænting í loftinu, nýtt skólaár að hefjast með öllum þeim væntingum og metnaði sem hleypir byr í seglin við upphaf hverrar ferðar. Listaháskóli Íslands getur svo sannarlega orðið ykkur mikilvægt veganesti inn á þær brautir sem hugur ykkar stefnir til. Slíkt veganesti verður þó einungis til fyrir tilstilli mikillar vinnu, einbeitingar og frumleika í hugmyndafræði og nálgun. Ekki bara ykkar, nemendanna, heldur okkar allra sem myndum það samfélag og suðupott sem akademía er og á að vera. Við vinnum að sameiginlegu markmiði; að finna háskólanámi á fræðasviði lista farveg sem er í takti við samtímann jafnt og vegvísir inn í framtíðina.

Innra starf Listaháskólans er aðall hans.  Styrkur sem hefur í raun vegið nægilega þungt til að jafna út ytra aðstöðuleysi, fjársvelti og tvístrun um alla borg. Þessi styrkur hefur skapað skólanum slíkt orðspor innan lands sem utan að hingað sækir fólk hvaðanæva að til að deila þekkingu sinni eða sækja sér nýja.

Við förum þó ekki í grafgötur um að ytri aðstæður Listaháskólans eru hamlandi. Þær takmarka möguleika til enn frekari þroska og nýsköpunar, fyrir utan að minnka þann slagkraft sem okkar þekkingarsamfélag gæti haft við betra atlæti.

 

VI

Það er því gott að geta deilt því með ykkur við upphaf skólaársins, að við sjáum loks merki þess að úrlausnir gætu verið í sjónmáli. Í það minnsta erum við komin í samtal um framtíðina og merkjum vilja stjórnvalda til að horfast í augu við vanda okkar.

Við stefnum ótrauð að því að skólinn verði sameinaður hér í Laugarnesi, en til þess að svo megi verða þarf margt að ganga saman. Og þótt unnið hafi verið að málinu í allt sumar, og m.a. stofnuð undirbúningsnefnd sem vinnur með Framkvæmdasýslu ríkisins, er ljóst að svona stór framkvæmd er tímafrek og margþætt eigi allt að vera eins og við kjósum helst.

Á meðan á þessu ferli stendur hefur verið gripið til ýmissa ráða til að gera okkur biðina bærilegri. Tónlistardeildin er nú alfarið flutt úr Sölvhólsgötu og hefur fengið nýtt heimili í Skipholti; í návígi við hönnunar- og arkitektúrdeildina og stoðsviðin í Þverholtinu.

Hér í Lauganesinu, eru að hefjast framkvæmdir við að breyta torginu sem við stöndum á núna til að skapa betra félagslegt andrými og umhverfi.

Enn brenna á okkur aðstæður sviðslistadeildar í Sölvhólsgötu, en það er orðið nokkuð ljóst að þær getum við tæpast bætt svo miklu muni nema koma deildinni varanlega fyrir hér í þessari byggingu. Vilyrði fyrir fjármagni til þeirra framkvæmda er þó ekki til staðar enn sem komið er.

Sem sagt – það er mörgu ósvarað þótt áfram reki í rétta átt.

Að því sögðu býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin til vetrarstarfsins og lýsi skólann settan.