Arnar Már Jónsson útskrifaðist af námsbraut í fatahönnun við Listaháskóla Íslands árið 2013. Eftir að hafa unnið hjá Rue Du Mail og All Saints hefur hann nú hafið mastersnám við Royal College of Art í London.

Að lokinni útskrift fékk Arnar atvinnutilboð frá hinu virta franska tískuhúsi Rue Du Mail í París. Arnar hafði áður unnið hjá þeim sem starfsnemi í gegnum starfsnámsáfanga í Listaháskólanum en þau Mark Ascoli og Martine Sitbon, listrænir stjórnendur tískuhússins, heilluðust af útskriftarlínu Arnars og höfðu samband strax daginn eftir útskrift.

Í starfi sínu hjá Rue Du Mail vann Arnar aðallega við það að fylla út skissubækur ásamt því að vinna mikið með textíl. Það sem honum fannst hvað áhugaverðast var að upplifa hvernig er að vinna á hönnunarstofu frá degi til dags. „Þetta var frábær reynsla sem undirbjó mig fyrir bæði námið sem ég er í og að fá vinnu seinna.“ Í framhaldinu fékk Arnar vinnu sem aðstoðarmaður Stuart Trevor (stofnanda All Saints). „Þar var ég hönnuðurinn að „menswear“-línu þeirra allt árið 2014.“

arnar32.jpg

Síðasta vetur ákvað Arnar Már að sækja um inngöngu í meistaranám í fatahönnun við Royal College of Art í London, sem er einn fremsti skóli heims á sviði fatahönnunar. „Ég beið eftir að ég gæti fengið styrk frá skólanum en ég þurfti að hafa unnið í Bretlandi til að hafa möguleika á því.“ Það er skemmst frá því að segja að Arnar komst inn í námið og lauk fyrstu önninni nú um áramótin.

„Námið er frábært, þetta er mjög sjálfstætt og krefjandi. Það eru engin verkefni, þú ert bara að vinna í því sem þú vilt vinna í, þinni eigin tísku hvernig sem hún er. Svo hittir maður kennarana sína og fólk úr bransanum og fær „feedback“ og heldur svo áfram að vinna.“ Aðspurður um framtíðaráform er aðeins ein skýr ósk, en það er að vinna áfram að skapandi verkefnum.

arnar1.jpg
arnar2.jpg