Helgina 7. og 8. október kl. 18:00 verður tónleikverkið Annarleikur flutt í Hafnarborg.

 
Höfundur þess er Atli Ingólfsson, prófessor í tónsmíðum.
 
Þetta er íslensk þýðing verksins, en það var frumsýnt í Gautaborg árið 2012 og hét þá Play Alter Native. Það er byggt á samnefndu leikverki eftir norska leikskáldið Finn Iunker.
 
Í þessari sýningu er Stúlknakór Reykjavíkur í aðalhlutverki, en leikararnir Álfrún Örnólfsdóttir og Arnar Dan Kristjánsson leiða söguna áfram. Flytjendur tónlistar eru auk kórsins Jón Svavar Jósefsson, rödd, Anna Petrini, blokkflautur, Kristín Þóra Haraldsdóttir, víóla, Katie Buckley, rafharpa og Frank Aarnink, slagverk.
 
Eitt af sérkennum sýningarinnar er að hún talar jafnt til barna og fullorðinna. Það eru einungis fullorðnir áhorfendur sem átta sig á hversu alvarleg málefni koma við sögu svo sem eignarhald á vatni, múgsefjun, stríð og efnahagshrun. Framsetningin er hins vegar þannig að börnin fylgja efninu eins og ævintýri, þótt það sé reyndar býsna margslungið og ófyrirsjáanlegt.
 
Fyrir norska uppsetningu leikritsins var söguþræðinum lýst sem hér segir:
Annarleikur fjallar um baráttu fyrir lífsviðurværi við þröngan kost, um möguleikann á stríði og um hvað gerist þegar peningar koma inn í dæmið. Gæðin sem barist er um eru einfaldlega vatnið, en vatnið var fyrir slysni mengað af „fávitunum“ sem búa ofar í dalnum. Þegar þeir sem bjuggu neðar í dalnum drukku þetta mengaða vatn breyttust þeir: Þeim leið eins og þeir væru hraustari. Þegar fávitarnir komast að þessu og sjá hversu sælir þeir eru með þetta byggja þeir stíflu og heimta greiðslu fyrir vatnið. Hér hefjast átökin, stríðið og loks viðskiptin.
Miðar eru til sölu á tix.is