Í ágúst sl. lauk tveggja ára stefnumiðaða samstarfsverkefninu NAIP: Innovation in Higher Music Education. Hér má sjá niðurstöður verkefnis.

Verkefnið var styrk af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins með það að markmiði að þróa námsefni í tónlistarkennslu á háskólastigi og aðlaga það að hlutverki tónlistarmanna nútímans. Þróunin var byggð á námsefni meistaranámsins Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP) sem er sniðin fyrir tónlistarmenn sem vilja móta sinn eigin starfsgrundvöll og taka að sér leiðtogahlutverk. Áhersla var lögð á nýjar aðferðir í tónlistarflutningi, samfélagslega tengingu gegnum tónsköpun og tónlistariðkun með fjölbreytilegum samfélagshópum.

Lokaskýrslan var metin af sérfræðingi utan Landskrifstofu og hlaut 90 stig af 100 mögulegum, sem er sérstaklega góður árangur og hefur verkefnið verið merkt sem „good practice example“ sem mun koma fram í upplýsingum um verkefnið á vefsíðu framkvæmdastjórnar ESB. Í samantekt matsmanns um verkefnið og verkefnisniðurstöður segir m.a. að verkefnið sé nýskapandi og mikilvægt í samhengi klassískrar tónlistarmenntunar. Sérfræðingurinn telur að NAIP nálgunin opni fyrir nýjar aðferðir í þjálfun nemenda, í umhverfi sem er annars í frekar föstum skorðum og byggt á gömlum hefðum. Einnig er verkefnið talið hafa skapað tækifæri á alþjóðlegri samvinnu nemenda.