Nemandi er ábyrgur fyrir framvindu síns náms innan skipulagsramma
skólans. Hann verður að ljúka hverju námsári sem er 60 einingar eða að
jafnaði 30 einingum á önn með fullnægjandi hætti til að geta haldið
áfram námi. Þetta á við um allan námsferil nemandans.

Nemandi flyst ekki á milli ára ef 10 einingar eða fleiri vantar upp á
námsárangur hans á námsárinu. Á fyrsta ári á leikarabraut í
leiklistardeild gildir um þann nemanda að hann verður að sækja um
skólavist að nýju vilji hann áfram stunda nám við skólann. Námsframboð
miðast við að nemandi fái viðurkenndar að hámarki 72 einingar á ári.

Samfelldur hámarksnámstími má lengstur vera eitt skólaár umfram
áætlaðan námstíma. Fjarvera vegna barneignaleyfis er undanskilin. Rektor
er heimilt að tillögu viðkomandi deildarforseta að veita undanþágur frá
þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.