Í námskeiðinu er fjallað um upphaf póstmódernismans um miðjan 8. áratug 20. aldar og þær breytingar sem urðu á orðræðu innan listheimsins í kjölfar hans og fram til dagsins í dag. Tímabilið einkennist af fjölradda breytingum sem hafa haft áhrif á myndlist, samfélagsrýni, fræðistörf, rannsóknir, sjálfsvitund listamanna, kvennabaráttu, réttindi og sýnileika listar eftir hinsegin listamenn og sýnileika listamanna utan vestrænnar menningar. Þær heimspekilegu hugmyndir sem þarna lágu að baki verða skoðaðar út frá hugmyndum um afbyggingu og uppgjör við módernismann, um skipan þekkingar, arkitektúrs og myndlistar. Hugmyndir og kenningar fræðimanna á borð við Foucault, Derrida, Baudrillard, Bourdieu og Bourriaud mynda fræðilegan grunn námskeiðsins. Viðfangsefni námskeiðisins er skoðað í fjölþjóðlegu samhengi myndlistar og menningar með módernismann í baksýnisspeglinum.

Námsmat: Skrifleg verkefni

Kennari: Magnús Gestsson er listfræðingur og lauk doktorsprófi frá University of Leicester á Bretlandi árið 2009. Rannsóknin fjallaði um tilurð menningarverðmæta í sölugalleríum fyrir myndlist í London, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Áhuga- og rannsóknarsvið Magnúsar eru m.a. gallerí, listmarkaðir, söfn, hinsegin listamenn, sýningarstjórnun, póstmódernismi og áhrif fræðikenninga á sýnileika myndlistar. Magnús hefur rekið Gallerí Gest - farandgallerí síðan 2011 og Gallerí 78 í samvinnu við Samtökin 78.

Staður og stund: Laugarnes, þriðjudagar kl. 10.30 - 12.10

Tímabil: 10.01 - 21.03 2017

Fyrir hverja er námskeiðið: Námskeiðið er opið fólki með myndlistarmenntun sem vill sækja sér símenntun. Skyldunámskeið í BA námi í myndlist.

Verð: 48.000 kr. (án eininga) – 60.000 kr. (með einingum)

Nánari upplýsingar: Sindri Leifsson, verkefnastjóri myndlistardeildar: sindrileifsson [at] lhi.is