Í námskeiðinu kljást nemendur við fagurfræði og skynjun umhverfis í víðu samhengi. Í fyrsta hluta námskeiðsins fást nemendur við grunnhugtök í fagurfræði og fyrirbærafræði skynjunar. Hvað er fagurfræði? Hvað er fegurð? Hvernig skynjum við veruleikann? Hvað er umhverfi? Fjallað verður um manneskjuna sem tengslaveru. Hver eru tengsl sjálfsins við umhverfið? Hvernig birtast þessi tengsl í landslagshugtakinu, í fegurðarhugtakinu, í listum? Í öðrum hluta skoðum við mismunandi anga fagurfræðinnar og tengingarnar á milli þeirra. Heimspekileg fagurfræði einskorðaðist lengi við umfjöllun um listir en síðustu áratugi hafa fleiri svið orðið að umfjöllunarefni fagurfræðinga. Fjallað verður um fagurfræði náttúru og umhverfis, fagurfræði hversdagsleika, auk fagurfræði lista. Í þriðja hluta verður fjallað um tengsl fagurfræði við siðfræði og lífsgæði. Í síðasta hluta námskeiðsins verður fjallað um fagurfræðilegt uppeldi og hvernig tengja má efni námskeiðsins við hugmyndir um listkennslu og við grunnþætti aðalnámskrár; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, og sköpun. Hvernig má auka umræðu og vitund um þátt fagurfræðilegrar skynjunar í lífsgæðum okkar?

Námsmat: Kennsluverkefni/sýning, lestrardagbók, umræður og ritgerð

Kennari: Dr. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir

Staður og stund: Laugarnes, föstudaga kl: 9:20-12:10.

Tímabil: 21. október - 9. desember, 2016. Ekki er kennt 28. október og 4. nóvember.

Verð: 72.000 kr. (án eininga) – 90.000 kr. (með einingum).

Fyrir hverja er námskeiðið/námstig:  Námskeiðið er opið öllum með BA gráðu eða sambærilegt nám. Námskeiðið hentar listamönnum úr öllum greinum, hönnuðum, listgreinakennurum, heimspekikennurum ofl. Valnámskeið í meistaranámi í listkennslu.