22.maí kl. 20:00
Salurinn, Kópavogi.

Stefán Ólafur Ólafsson mun halda útskriftartónleika sína í klarinettleik frá Listaháskóla Íslands sunnudaginn 22. maí 2016 kl. 20:00. Tónleikarnir fara fram í Salnum í Kópavogi. Á efnisskrá eru verk eftir Paul Hindemith, Olivier Messiaen, Arthur Benjamin, Carl Maria von Weber og Jón Nordal.

Stefán er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann hóf tónlistarnám sex ára gamall við Tónlistarskóla Kópavogs, fyrst í forskóla og síðar á blokkflautu. Níu ára hóf hann svo klarinettnám hjá Kristjáni Þ. Stephensen í Lúðrasveit Laugarnesskóla. Þegar Kristján hætti kennslu sneri Stefán aftur í Kópavoginn og hóf nám hjá Rúnari Óskarssyni, þá 12 ára gamall. Stefán lauk framhaldsprófi í klarinettleik undir hans leiðsögn árið 2012.

Sama haust hóf Stefán nám við Listaháskóla Íslands. Aðalnámsgreinin var þó ekki klarinettleikur, heldur tónsmíðar undir handleiðslu Tryggva M. Baldvinssonar. Fyrir ákveðna tilviljun gafst Stefáni þó kostur á því, samhliða tónsmíðanáminu, að sækja tíma í klarinettleik hjá Einari Jóhannessyni. Varð klarinettleikurinn smám saman æ viðameiri þáttur í námi Stefáns og í janúar 2014 sagði hann skilið við tónsmíðanámið og sneri sér alfarið að klarinettinu.

Alfarið er þó kannski óþarflega sterkt orð, því Stefán hefur sjaldan verið við eina fjölina felldur í tónlistarnámi sínu. Á árunum 2011 til 2015 sótti Stefán tíma hjá Hafsteini Guðmundssyni, fyrst í fagottleik og síðar einnig í saxófón- og þverflautuleik. Auk þess hefur hann sótt tíma í bassaklarinettleik hjá Rúnari Óskarssyni síðan 2013. Hann hefur heldur aldrei sagt alveg skilið við tónsmíðarnar, því allt frá árinu 2010 hefur Stefán stundað raftónlistar- og raftónsmíðanám í Tónveri Tónlistarskóla Kópavogs, þar sem aðalkennarar hans hafa verið Hilmar Þórðarson, Haraldur V. Sveinbjörnsson og Jesper Pedersen.

Stefán hefur einnig sinnt hljómsveitarleik og leikið meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, auk fjölda kammersveita og smærri hópa. Þá hefur hann síðustu ár leikið með Lúðrasveit Hafnarfjarðar. Stefán hefur einnig sótt fjölmarga masterklassa og einkatíma, bæði hér heima og erlendis, meðal annars hjá Barnaby Robson, Martin Fröst og Hans Colbers. Að endingu er vert að minnast á Atla Ingólfsson tónskáld, sem hefur verið mikill áhrifavaldur Stefáns.

Stefán er einn stofenda Ómkvarnarinnar, tónlistarhátíðar tónsmíðanema við Listaháskóla Íslands.