Útskriftartónleikar píanóleikarans Lilju Maríu Ásmundsdóttur frá Listaháskóla Íslands verða í Salnum í Kópavogi þann 20. maí kl. 20:00. Flutt verða verk eftir Olivier Messiaen, Claude Debussy, Franz Liszt, Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur, György Ligeti, Toru Takemitsu og Rodion Shchedrin.

Lilja María hóf nám í fiðluleik við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar fjögurra ára að aldri og lauk 6. stigi árið 2008 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Tíu ára gömul hóf hún nám í píanóleik við Tónskóla Sigursveins hjá Þórunni Huldu Guðmundsdóttur. Hún lauk framhaldsprófi vorið 2013 samhliða því að ljúka stúdentsprófi af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Sama ár hóf hún nám við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté.

Lilja var einn af fjórum sigurvegurum í keppninni Ungir einleikarar í nóvember árið 2014 og lék í kjölfarið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2015. Lilja hefur sótt ýmsa masterklassa við skólann, m.a. hjá Víkingi Heiðari Ólafssyni, Jens Harald Bratlie, Robert Levin og Steven Osborne.

Lilja er á leiðinni í starfsnám næsta haust hjá píanistanum, Sarah Nicolls, í London. Nicolls hefur hannað nýtt píanó sem hún kallar Inside-Out Piano. Munu hún og Lilja skipuleggja málstofu í kringum þetta nýja píanó ásamt því að vinna með hugmyndir sem tengjast hljóðskúlptúrum