Miðvikudaginn 24. febrúar kl. 12.15 halda þau Margrét Harðardóttir og Steve Christer erindið Meira í dag en í gær í fyrirlestraröð hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrarsal A.

Margrét og Steve kynntust í Architectural Association í London árið 1982 og stofnuðu Studio Granda árið 1987. Þau hafa bæði kennt við námsbraut í Arkitektúr við Listaháskóla Íslands og leiðbeina nú nemendum við útskriftarverkefni í þriðja sinn í röð.

Verkefni Studio Granda hafa verið af ýmsum toga og munu þau í fyrirlestrinum fjalla um nokkur verk sem unnin hafa verið á síðustu árum.

Facebook viðburður

 

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar hönnunar- og arkitektúrdeildar eigin hönnunarverkefni og rannsóknir og ræða tengsl þeirra við kennslu í námskeiðum við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl hönnunar, sköpunar og rannsókna, kennslu og þekkingaröflunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum. 

Við hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á meistaranám í hönnun. Áhersla er lögð á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Nemendur eru stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt og endurspeglast þessi áhersla einnig i í kennslu og rannsóknum kennara.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun hvatt til að mæta. 

Hádegisfyrirlestrarnir eru í sal A í húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Allir velkomnir.