Halldór Haraldsson á að baki langan feril sem píanóleikari, kennari og skólastjóri. Hann brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1960 og frá Royal Academy of Music í London 1965. Hann hélt sína fyrstu opinberu tónleika á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík 1965 og hefur síðan haldið fjölmarga einleikstónleika hérlendis og erlendis. Þá hefur hann haldið fjölda tónleika með öðrum tónlistarmönnum í kammertónlist. Hann hélt marga tónleika ásamt Gísla Magnússyni píanóleikara á tvö píanó og hann var einn af stofnendum Tríós Reykjavíkur ásamt Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara, en tríóið hélt fjölmarga tónleika bæði innanlands og utan. Halldór kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík allt frá 1966 – 2008. Hann var í mörg ár yfirkennari píanókennaradeildar og síðar píanódeildar skólans og skólastjóri frá 1992-2003. Frá honum hafa útskrifast margir efnilegir ungir píanóleikarar, bæði fráTónlistarskólanum og síðar frá Listaháskóla Íslands þar sem hann kenndi frá 2001 til ársins 2012.