Lóa Auðunsdóttir hóf störf við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans haustið 2013 og starfar sem aðjúnkt í grafískri hönnun við deildina. Hún lærði vöruhönnun í Listaháskóla Íslands og lauk mastersgráðu í bókahönnun og typografíu við Háskólann í Reading. Hún hefur starfað sjálfstætt sem hönnuður að ýmsum verkefnum með áherslu á bókahönnun.

Í fyrirlestri sínum fjallar Lóa um verkefni sín í grafískri hönnun og mastersrannsókn sína þar sem hún rannsakaði áhrif rafvæðingar bókarinnar á hönnun bókakápa. Einnig fjallar hún um nálgun og viðhorf sitt til kennslu við Listaháskólann og hvernig ný tækni og sífellt aukið flæði upplýsinga hefur áhrif á þróun fagsins og kennslu í grafískri hönnun.