Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld, mun flytja fyrirlestur í málstofu tónsmíðanema föstudaginn 31. mars kl. 13-14:40.

Elín mun fjalla um verk sem skrifuð eru á seinustu fimm árum. Í mörgum þeirra kemur þverflautan mjög við sögu og því verður flautuleikarinn Pamela De Sensi með í för og mun hún leika tvö verkanna sem fjallað verður um.

Elín Gunnlaugsdóttir (1965) lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987. Hún útskrifaðist frá sama skóla úr tónfræðadeild árið 1993 þar sem kennarar hennar í tónsmíðum voru Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Hafsteinsson. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag. Þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Frá því Elín lauk námi hefur hún búið á Selfossi og unnið við tónsmíðar ásamt kennslu. Hún kennir nú við Tónskóla Sigursveins og er jafnfram stundakennari við Listaháskóla Íslands.

Verk Elínar hafa verið flutt bæði hér heima og erlendis. Nokkur verka Elínar hafa komið út á geisladiskum og árið 2011 gaf hún út bók og disk sem nefnist Póstkort frá París og á þessu vori kemur út á bók og diski verkið albúm sem er myndlýsing Önnu Giudice á flautuverkinu albúm. Hún hefur skrifað tvö stærri verk fyrir börn, barnaballettinn Englajól (2012) og söngleikinn Björt í sumarhúsi (2015). Vorið 2018 frumflytur Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum Tónsprotans nýtt tónlistarævintýri eftir hana við sögu eftir Lailu Arnþórsdóttur.