SVANHILDUR HALLA HARALDSDÓTTIR

ÞRÆÐIR

Einkasýning Svanhildar Höllu Haraldsdóttur opnar fimmtudaginn 12. október kl.17:00 – 19:00 í Huldulandi, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

„Minnið er í hlutverki hinnar duttlungafullu saumakonu. Minnið beinir nálinni inn og út, upp og niður, út og suður. Við vitum ekki hvað kemur næst eða hvað fylgir í kjölfarið á því. Þannig að hversdagslegustu athafnir í heiminum geta hreyft við óteljandi furðulegum sundurleitum brotum, björtum og myrkum, látið þau hanga og sveifast, taka dýfur og svífa.“

Virginia Woolf – Orlando

Nú er mál að halda þræðinum. Því hugurinn er á stöðugri hreyfingu, viðkvæmur, titrandi, samsettur af hugsunum. Einstakar en samt tvinnast þær saman. Skynjun blandast við minningar og tilfinningalegt ástand. Hugmyndir taka á sig form, í þeim kjarnast hugsun sem hægt er að kalla fram með tungumáli. Spinna sögur í ljóðrænu flæði.
Á flæði hugans kemur hik. Hann fyllist ótta við að missa þráðin í vitleysu og óstjórnleika, festist í manngerðum vef tákna, sprottnum af þrá fyrir skilningi.
Bara ef tíminn slær í takt við klukkuna,
þá verður allt í lagi?
Kvíði fyllir hugann, hræðsla við gleymskuna, þögnina, myrkrið, tómið.

Í gleymskunni eru að finna nafnlausar konur sem vinna, þolinmæðisvinnu.
Saga þeirra er sveipuð hulu. Tungumálið horfið.
Í þögninni láta þær verkin tala.
Sögu hefðar, arfleiðar, undirokunar, vinnuhörku, útsjónarsemi, lífsþróttar.
Flæði fer að renna, fyllist hugrekki aftur, vill rífa þráðinn upp úr algleyminu og lyfta hulunni af þessari hugsun.
Hjartað brennur fyrir nýrri hugmynd.
En örlögin hlæja bara og skvetta vatni á þennan nýfundna eldmóð.
Hugurinn beinist að mállausum verum sem ferðast um í hjörðum. Vitibornar lífverur sem gerðar verða að hlutum, líkamar sem breytast í hráefni.
Myrkrið skellur á og í því dafnar óstjórnleg vitleysa.
Þar er að finna sköpun og í tóminu tilgang.

Facebook viðburður hér

svanhildur.png
 

Á tímabilinu 5. október – 3. desember stendur yfir röð 23 einkasýninga nemenda á 3. ári við myndlistardeild Listaháskólans.

Á hverjum fimmtudegi á tímabilinu opna í senn þrjár einkasýningur í mismunandi sýningarýmum skólans í Laugarnesi, í Naflanum sem er í miðju húsinu, Kubbnum á annarri hæð og Huldulandi sem er innst í húsinu, sem þekkt er fyrir langa ganga og ranghala. Einn nemandi mun sýna í fyrrverandi söluturninum við Sunnutorg á Langholtsvegi 70. Sýningaropnanir eru á fimmtudögum kl. 17-19 og eru allir velkomnir.

Á föstudögum kl. 15 (nema annað sé auglýst) fara fram leiðsagnir um sýningarnar þar sem nemendur segja frá verkum sínum. Almennt byrjað í Nafla.

Einkasýningar nemenda eru liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora, í umsjón Bjarka Bragasonar. Leiðbeinendur ásamt Bjarka eru Unnar Örn og Anne Rombach. Juliane Foronda sinnir aðstoðarkennslu en gestir í námskeiðinu hafa verið Nadim Samman, Werner Herzog og Sigrún Sirra Sigurðardóttir.