Tilraunamennskan uppmáluð; fatahönnuðurinn og myndlistarmaðurinn Robert Cary-Williams er fæddur 1966 og stundaði nám við Central Saint Martin’s School of Art & Design í London. Hann er þekktur fyrir að leika sér með eiginleika og mörk efna. Dæmi um það eru „Shotgun“-lína hans þar sem hann hannaði línu af bolum þar sem flíkurnar voru skotnar með haglabyssu en hugmyndin vakti athygli og nutu bolirnir mikilla vinsælda hjá ákveðnum samfélagshópi.

Hönnun Cary-Williams býr yfir fínlegri fegurð í ætt við hátísku liðinnar aldar en er á sama tíma undir áhrifum frá árstíðunum og klæðnaði hermanna sem eru ættuð frá rótum hans í landbúnaði og veru hans í hernum á yngri árum. Útkoman er heilsteyptur still sem einkennist af þekkingu og gagnrýnu viðhorfi til samfélagsins. Verk eftir Cary-Williams eru hluti af safneign London's Victoria & Albert Museum í London og New York's Metropolitan Museum of Art.

Á síðustu árum hefur Cary-Williams fært sig meira í áttina að myndlist eftir eftir að hafa farið aftur í nám við Central Saint Martin’s í því fagi.Robert Cary-Williams hefur verið stundakennari við Listaháskólann frá árinu 2007.

 

 

SNEIÐMYND - SKAPANDI UMBREYTING

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar Hönnunar- og arkitektúrdeildar eigin hönnunarverkefni og rannsóknir og ræða tengsl þeirra við kennslu í námskeiðum við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl hönnunar, sköpunar og rannsókna, kennslu og þekkingaröflunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum.

Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á meistaranám í hönnun. Áhersla er lögð á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Nemendur eru stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt og endurspeglast þessi áhersla einnig i í kennslu og rannsóknum kennara.