Fornafn: 
Björg Jóna Birgisdóttir

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt
aðgát skal höfð i nærveru sálar.

(Einar Benediktsson)

Forstöðumaður námsþjónustu

Meginmarkmið háskólaskrifstofu er að veita nemendum, starfsmönnum og öðrum góða þjónustu. Mitt starf sem forstöðumaður námsþjónustu er fjölbreytt og í því felst umsjón með nemendabókhalds- og kennslukerfi skólans. Má þar nefna ýmsa þróunarvinnu við innri vef skólans, umsjón með kennslumati, prentun og frágang útskriftargagna og skipulag skóladagatals. Önnur störf eru meðal annars ýmiss konar skýrslugerð og þátttaka í nefndum innan og utan skólans. Á háskólaskrifstofunni starfa deildarfulltrúar, þjónustufulltrúar, móttökufulltrúi, alþjóðafulltrúi, náms- og starfsráðgjafi og hef ég umsjón með þeirra störfum.

Áður en ég hóf störf við Listaháskólann starfaði ég á háskólastigi í tveimur háskólum þ.e.a.s. Háskólanum í Reykjavík og Tækniháskólanum og kynntist ítarlega starfsemi þeirra og sú reynsla hefur nýst vel í starfi mínu.

Fræðimaður

Undanfarin 15 ár hef ég unnið að rannsóknum sem tengjast mínu sérsviði, náms- og starfsráðgjöf. Ég hef tekið þátt í evrópskum rannsóknarverkefnum sem hafa það að meginmarkmiði að þróa aðferðir til að vinna með einstaklinga í brotthvarfshættu. Ég var verkefnastjóri í tveimur evrópskum Leónardó da Vinci samstarfsverkefnum: Annars vegar í verkefninu SPIDERWEB (Support Program in Development Represented on the WEB) og hins vegar í PPS ( Personal Profile and Support for Learners) verkefninu.  Samstarfsaðilarnar voru frá ýmsum löndum Evrópu, þ.e.a.s Noregi, Finnlandi, Skotlandi, Írlandi, Spáni, Slóvakíu og Grikklandi. Í þessum verkefnum voru þróaðar aðferðir fyrir náms- og starfsráðgjafa og stjórnendur til að vinna með þá sem eru í áhættuhópi. Í verkefnunum voru gefnar út eftirtaldar bækur:

WATCH Handbook for Facilitators when Assisting Learners in Groups e. Önnu Sigurðardóttur, Björgu Birgisdóttur og Sigríði Huldu Jónsdóttur(2004).

PPS handbook: Personal Profile and Support for Learners. Florida Edicions e. A. Alvares, S. Berglien, B. Birgisdóttir. K.S. Blöndal o.fl. (2008).

Ég hef átt farsælt samstarf með tveimur náms- og starfsráðgjöfum, Önnu Sigurðardóttur og Sigríði Huldu Jónsdóttur og okkar samstarf hófst á því að við þróuðum stuðningskerfi sem íslenskir náms- og starfsráðgjafar gátu nýtt sér þegar verið var að vinna með einstaklinga í brotthvarfshættu. Stuðningskerfið hét Sjálfstæði - Öryggi - Árangur. Stuðningskerfið var þróað enn frekar fyrir mismunandi aðstæður í Evrópu í Spiderweb verkefninu og heitir WATCH – What Alternatives? Thinking - Coping – Hoping.

Síðastliðin ár hef ég tekið þátt í svokölluðum yfirfærsluverkefnum innan Leónardó da Vinci áætlunarinnar og þar hafa þær aðferðir sem þróaðar voru í SPIDERWEB og PPS verið aðlagaðar og þýddar meðal annars í Svíþjóð, Austurríki, Tékklandi og Slóveníu. 

Kennari  

Hef kennt í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla og haft mikinn áhuga á kennslu í gegnum árin. Ég hef aðallega kennt á tveimur sviðum. Fyrstu árin kenndi ég stærðfræði í grunn- og framhaldsskóla og tók þátt í samningu námsefnis í stærðfræði fyrir grunnskóla. Helstu áherslur mínar í kennslunni voru virðing og samvinna og ég lagði áherslu á að miðla efninu á skýran hátt og veita þeim sem á þurftu að halda sérstakan stuðning.

Síðastliðin ár hef ég kennt námsgreinar tengdar náms- og starfsráðgjöf  á  háskólastigi og þar hefur mitt sérsvið verið hópráðgjöf. Í WATCH stuðningskerfinu er lögð áhersla á hópráðgjöf og hugmyndafræði kerfisins er að hver og einn einstaklingur skiptir máli og fái stuðning við sitt hæfi.  Að mínu mati er þessi hugmyndafræði afar mikilvæg þegar verið er að vinna með einstaklinga í áhættuhópi og og einnig fallega ljóðlínan úr kvæði eftir Einar Benediktsson aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þessir þættir hafa mótað kennsluna mína og orðið mitt leiðarljós í gegnum tíðina.

Department: 
Deild á starfsmannasíðu: