Hlutverk myndlistardeildar Listaháskóla Íslands er að vera leiðandi afl í myndlistarkennslu á háskólastigi. Myndlistardeild skapar gefandi og kraftmikið umhverfi þar sem nemendur geta öðlast þekkingu á sviði samtímamyndlistar og ræktað tengsl við íslenskt myndlistarumhverfi, sem og alþjóðlegt. 

Myndlistardeild er vettvangur kennslu, upplýsinga, rannsókna og umræðu um myndlist. Áhersla er lögð á að kynna fyrir nemendum fjölbreytta möguleika fagsins og veita þeim innsýn í alþjóðlegt umhverfi samtímamyndlistar, sögu þess og samhengi. Með verklegri kennslu og fræðilegri nálgun er lagður grunnur að þeim vinnubrögðum sem nauðsynleg eru til að ná árangri við störf eða frekara nám á fagsviðinu. Nemendur eru hvattir til að takast á við greinandi og skapandi myndhugsun og móta þeirra eigin listrænu sýn, þar sem innsæi, gagnrýnin hugsun og söguleg vitund eru höfð að leiðarljósi.

Á námstímanum geta nemendur valið um sérhæfingu innan helstu miðla og aðferða myndlistar svo sem skúlptúrs, málunar, prents, innsetninga, ljósmyndunar, vídeó, hljóðs eða gjörninga. Engar miðlatengdar brautir eru við deildina heldur er áhersla lögð á að nemendur kanni sjálfir fjölbreytta möguleika til listsköpunar, hvort sem er í tvívíðum eða þrívíðum miðlum, og öðlist færni í verklegri framkvæmd jafnt sem fræðilegri hugsun. Myndlistardeild býður upp á nám á bakkalárstigi og meistarastigi.Kennarar við deildina eiga það sammerkt að vera virkir þátttakendur í sínu fagi hvort sem er á sviði listsköpunar eða fræða.

Markmið myndlistardeildar

  • skapa nemendum aðstöðu til að auka þekkingu sína og skilning á samtímamyndlist
  • móta gagnrýna meðvitund á sögu og kenningum fagsins þar sem forvitni, skilningur og áræði eru höfð að leiðarljósi
  • að nemendur geti þroskað og þróað með sér sjálfstæða myndhugsun sem miðar að því að þeir verði hæfari til að takast á við hlutverk sitt og stöðu sem myndlistarmenn
  • að nemendur þrói með sér hæfni til frekara náms og / eða sjálfstæðra starfa á vettvangi myndlistar
  • að nemendur geti tekið þátt í sýningum, umræðum og uppbyggingu fagumhverfis myndlistar hér á landi og sótt um alþjóðlegar vinnustofur og starfsstyrki

Samstarf

Innlent samstarf

Stór hluti náms  við Listaháskólans byggir á þátttöku í listrænu starfi og hefur  myndlistardeild fengið til liðs við sig ýmsar stofnanir og fyrirtæki sem með  einum eða öðrum hætti  tengjast skólastarfinu: listasöfn og menningarmiðstöðvar, vinnustofur listamanna, gallerí og fyrirtæki.  Meðal stofnana sem myndlistardeild hefur átt samstarf  við má nefna: Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, Listasafn Kópavogs Gerðarsafn, Nýlistasafnið, Menningarmiðstöðina Skaftfell, Listahátíð í Reykjavík og Sequences myndlistarhátíð.

Alþjóðlegt samstarf

Listaháskólinn  tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og er myndlistardeild aðili að tveimur viðamiklum  samskiptaáætlunum, Nordplus,  menntaáætlun Norðurlandaráðs og Erasmus/ Sókrates, menntaáætlun Evrópusambandsins. Báðar þessar áætlanir byggjast á kennara- og nemendaskiptum auk annarra samvinnuverkefna. Þátttaka myndlistardeildar í þessum áætlunum gerir nemendum kleift að stunda hluta af námi sínu við listaháskóla um víða veröld. Einnig gerir það  nemendasamfélagið fjölbreyttara  og ríkara  að fjöldi erlendra skiptinema stundi nám við deildina á ári hverju.

Á vefsíðu skólans er að finna lista yfir samstarfsnet og samstarfsskólar.

Nám í myndlist

Myndlist samtímans er ekki eingöngu bundin við hið sjónræna heldur getur hún stuðst við nánast hvaða miðil sem er. Hún sækir óhikað í tónlist, ritlist, leiklist, dans, kvikmyndagerð og hönnun. Fyrir vikið er myndlistarheimurinn einskonar tilraunastofa  þar sem nýjar aðferðir og hugmyndir eru kannaðar.

Nám við myndlistardeild gerir nemendur hæfari til að starfa sjálfstætt sem myndlistarmenn í alþjóðlegum listheimi; taka þátt í sýningum, umræðum og uppbyggingu fagumhverfisins hér á landi og vera virkir gerendur á vettvangi samtímamyndlistar, bæði innan og utan landsteina.

Námið nýtist auk þess til margs konar myndlistartengdra starfa, t.d. á söfnum, við kennslu, fræðslu og miðlun. Í samfélagi dagsins í dag eru síauknar kröfur gerðar til skapandi, greinandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða. Sá grunnur sem nám við myndlistardeild Listaháskólans leggur nýtist við framsækin verkefni og nýsköpun á öllum sviðum atvinnu- og menningarlífs á Íslandi.

BA Myndlist

BA-nám í myndlist er þriggja ára nám til 180 eininga. Námið skiptist milli listsköpunar til 128 eininga og fræðigreina til 52 eininga. Því lýkur með BA-verkefni sem felur í sér ritgerð um eigin verk, ferilmöppu og lokaverk sem sýnt er á útskriftarsýningu.  Áhersla er lögð á að kynna fyrir nemendum fjölbreytilega möguleika fagsins og veita þeim innsýn í alþjóðlegt umhverfi samtímamyndlistar, sögu þess og samhengi. 

MA Myndlist

MA-nám í myndlist er tveggja ára fullt staðarnám til 120 ECTS eininga. Námið skiptist milli sjálfstæðrar listsköpunar til 60 eininga, fræðigreina til 30 eininga og MA verkefnis til 30 eininga, sem felur í sér framsetningu verks/verka á sýningu, ritgerð um eigin verk og rannsóknir og útgáfu. Kjarni meistaranáms í myndlist fer fram á vinnustofum nemenda þar sem þeir vinna jafnt og þétt að þróun verka sinna í samráði við leiðbeinendur á sviði listsköpunar og fræða.