Hlutverk myndlistardeildar Listaháskóla Íslands er að vera leiðandi afl í myndlistarkennslu á háskólastigi. Myndlistardeild skapar gefandi og kraftmikið umhverfi þar sem nemendur geta öðlast þekkingu á sviði samtímamyndlistar og ræktað tengsl við myndlistarvettvanginn, innlendan sem alþjóðlegan. 

Myndlistardeild er vettvangur kennslu, upplýsinga, rannsókna og umræðu um myndlist. Áhersla er lögð á að kynna fyrir nemendum fjölbreytta möguleika fagsins og veita þeim innsýn í alþjóðlegt umhverfi samtímamyndlistar, sögu þess og samhengi. Með verklegri kennslu og fræðilegri nálgun er lagður grunnur að þeim vinnubrögðum sem nauðsynleg eru til að ná árangri við störf eða frekara nám á fagsviði myndlistar. Nemendur eru hvattir til að takast á við greinandi og skapandi myndhugsun og móta þeirra eigin listrænu sýn, þar sem innsæi, gagnrýnin hugsun og söguleg vitund eru höfð að leiðarljósi.

Á námstímanum geta nemendur valið um sérhæfingu innan helstu miðla og aðferða myndlistar svo sem skúlptúrs, málunar, prents, innsetninga, ljósmyndunar, vídeó, hljóðs eða gjörninga. Engar miðlatengdar brautir eru við deildina heldur er áhersla lögð á að nemendur kanni sjálfir fjölbreytta möguleika til listsköpunar, hvort sem er í tvívíðum eða þrívíðum miðlum, og öðlist færni í verklegri framkvæmd jafnt sem fræðilegri hugsun.

Myndlistardeild býður upp á nám á bakkalárstigi og meistarastigi.

Kennarar við deildina eiga það sammerkt að vera virkir þátttakendur í sínu fagi hvort sem er á sviði listsköpunar eða fræða.

Markmið:

Markmið myndlistardeildar eru að:

  • Skapa nemendum aðstöðu til að auka þekkingu sína og skilning á samtímamyndlist. 
  • að móta gagnrýna meðvitund á sögu og kenningum fagsins þar sem forvitni, skilningur og áræði eru höfð að leiðarljósi. 
  • að nemendur geti þroskað og þróað með sér sjálfstæða myndhugsun sem miðar að því að þeir verði hæfari til að takast á við hlutverk sitt og stöðu sem myndlistarmenn.
  • að nemendur geti starfað sjálfstætt sem myndlistarmenn í alþjóðlegum listheimi.
  • að nemendur geti tekið þátt í sýningum, umræðum og uppbyggingu fagumhverfis myndlistar hér á landi og sótt um alþjóðlegar vinnustofur og starfsstyrki.  

Innlent samstarf:

Stór hluti náms við Listaháskólans byggir á þátttöku í listrænu starfi og hefur myndlistardeild fengið til liðs við sig ýmsar stofnanir og fyrirtæki sem með einum eða öðrum hætti tengjast skólastarfinu: listasöfn, menningarmiðstöðvar, vinnustofur listamanna, gallerí, fyrirtæki og smiðjur. Meðal stofnana sem myndlistardeild hefur átt samstarf við má nefna: Hugvísindadeild Háskóla Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, Nýlistasafnið, Menningarmiðstöðina Skaftfell, Listahátíð í Reykjavík og Sequences myndlistarhátíð.

Myndlist samtímans er ekki eingöngu bundin við hið sjónræna heldur getur hún stuðst við nánast hvaða miðil sem er. Hún sækir óhikað í tónlist, ritlist, leiklist, dans, kvikmyndagerð og hönnun. Fyrir vikið er myndlistarheimurinn einskonar tilraunastofa þar sem nýjar aðferðir og hugmyndir eru kannaðar. Allar skapandi greinar njóta góðs af niðurstöðunum. 

Alþjóðlegt samstarf:

Listaháskólinn tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og er myndlistardeild aðili að tveimur viðamiklum samskiptaáætlunum, Nordplus, menntaáætlun Norðurlandaráðs og Erasmus/Sókrates, menntaáætlun Evrópusambandsins. Báðar þessar áætlanir byggjast á kennara- og nemendaskiptum auk annarra samvinnuverkefna. Þátttaka myndlistardeildar í þessum áætlunum gerir nemendum kleift að stunda hluta af námi sínu við listaháskóla um víða veröld. Einnig gerir það nemendasamfélagið fjölbreyttara og ríkara að fjöldi erlendra skiptinema stundi nám við deildina á ári hverju.

Á vefsíðu skólans er að finna lista yfir samskiptaáætlanir og samstarfsskóla hér: Link \u002D hér

BA- nám í myndlist

BA-nám í myndlist er þriggja ára nám til 180 eininga. Námið skiptist milli listsköpunar til 128 eininga og fræðigreina til 52 eininga. Því lýkur með BA-verkefni sem felur í sér ritgerð um eigin verk, ferilmöppu og lokaverk sem sýnt er á útskriftarsýningu.

Inntökuskilyrði miðast við að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi sem inntökunefnd metur gilt. Nauðsynlegt er að umsækjandi geti sýnt fram á tilsettan undirbúning sem að öllu jöfnu fer fram innan listnámsbrauta framhaldsskólanna eða annara sambærilegra skóla.

Sérskipuð inntökunefnd metur umsóknir á grundvelli mats á innsendu efni og viðtölum.

Kennsla á BA stigi:

Á BA stigi býður myndlistardeild upp á kennslu á sviði handverks, tækni og aðferða listsköpunar auk listfræða í því markmiði að hvetja nemendur til gagnrýninnar og skapandi hugsunar sem skilar sér með markvissri framsetningu á sjálfstæðum myndverkum.
Kennsla fer fram á námskeiðum, þar sem stuðst er við bæði hópleiðsögn og einkaleiðsögn, í fyrirlestrum, málstofum, umræðum og gagnrýni í smærri hópum auk tæknikennslu á verkstæðum deildarinnar sem eru mikilvægur vettvangur fyrir nemendur. Þar fer fram fjölbreytt kennsla ásamt því að umsjónarmenn aðstoða nemendur við úrlausnir einstakra verkefna.

Dagleg kennsla fer fram á tímabilinu kl. 8.30–12.10 og frá kl. 13.00–16.40. Kennslu er skipt niður í mislöng námskeið allt frá einni viku til fimmtán vikna. Námið felur í sér vinnu á vinnustofu, fyrirlestratíma, hópumræður og kynningar, verkstæðiskennslu, þátttöku í sérverkefnum og sjálfstætt nám. Frá kl. 13.00 til 16.40 sækja nemendur vinnustofur. Þær eru starfsvettvangur nemenda og leiðbeinenda. Þar eru tekin fyrir margs konar verkefni sem tengjast listsköpun svo sem hugmyndavinna, rannsóknir, aðferðir/tækni og sjálfstæð vinna.
Frá kl. 8.30–12.10 vinna nemendur sjálfstætt, sækja námskeið í listfræðigreinum eða í tækni og aðferðum. 

  • Á 1. ári er áhersla lögð á að þróa myndmál og auka hugmyndaforða nemenda og kynna þeim liststefnur, aðferðir og tækni ólíkra miðla. Nemendur takast á við samtímalistfræði, auk þess að sækja margs konar námskeið á verkstæðum skólans, s.s. í ljósmyndun, tölvuvinnslu, vídeó, tré- og járnsmíði, mótun, málun, prentun o.fl. Á vormisseri er gefinn kostur á fjölbreyttu vali sérhæfðra vinnustofa með ýmsum listamönnum.
  • Á 2. ári er listsköpunarþáttur námsins í fyrirrúmi með áherslu á sjálfstæða vinnu. Nemendur sækja ráðgjöf til prófessora deildarinnar og utanaðkomandi listamanna. Á vormisseri er gefinn kostur á fjölbreyttu vali sérhæfðra vinnustofa með ýmsum listamönnum. Í listfræði er lögð áhersla á sérhæft efni á svið listasögu og hugmyndafræði.
  • Á 3. ári stunda nemendur sjálfstætt nám undir handleiðslu leiðbeinenda sem lýkur með útskriftarverki og ritgerð. Útskriftarverkið er sýnt á opinberri útskriftarsýningu. Að loknu námi og tilskildum verkefnum og prófum í deild hlýtur nemandi BA gráðu í myndlist.

MA- nám í myndlist

MA-nám í myndlist er tveggja ára fullt staðarnám til 120 ECTS eininga. Námið skiptist milli sjálfstæðrar listsköpunar til 60 eininga, fræðigreina til 30 eininga og MA verkefnis til 30 eininga, sem felur í sér þátttöku í sýningu, ritgerð um eigin verk og rannsóknir og útgáfu. Kjarni meistaranáms í myndlist fer fram á vinnustofum nemenda þar sem þeir vinna jafnt og þétt að þróun verka sinna í samráði við leiðbeinendur á sviði listsköpunar og fræða.

Til að öðlast inngöngu í meistaranám
í myndlist skulu umsækjendur hafa bakkalárgráðu í myndlist eða skyldum greinum lista og fræða. Áhersla er lögð
á að umsækjendur búi yfir þekkingu og færni til listsköpunar, sjálfstæðri og skýrri listrænni sýn, ásamt frumkvæði og getu til að fylgja hugmyndum sínum eftir.
Sérskipuð inntökunefnd metur umsóknir á grundvelli mats á innsendu efni og viðtölum.

Athugið að meistaranám í myndlist er alþjóðlegt nám og kennslutungumál er enska.

Kennsla á MA stigi:

Nám á MA stigi felur í sér sjálfstæða vinnu, fyrirlestratíma, hópumræður og fræðanámskeið auk þátttöku í sérverkefnum og styttri vinnusmiðjum. Nemendur fá kennslu í verklegum og rannsóknartengdum aðferðum sem gefur kost á fjölbreyttri sérhæfingu. Veigamikill hluti námsins fer fram í gegnum samræður hópsins og einkaleiðsögn á vinnustofum nemenda. Nemendur skrá sig reglulega í einkaleiðsögn hjá ýmsum leiðbeinendum; listamönnum, sýningarstjórum og fræðafólki, hvort sem um er að ræða fasta kennara deildarinnar, innlenda eða erlenda gesti. 

Dagleg kennsla fer fram á tímabilinu kl. 8.30–12.10 og frá kl.13.00–16.40. Kennsla í listfræðigreinum og málstofum fer fram fyrir hádegi nokkra morgna í viku. Námið gerir miklar kröfur til sjálfstæðra vinnubragða nemenda og markvissrar þróunar verka þeirra og rannsókna á sviði myndlistar. Nemendum gefst kostur á að fara í skiptinám erlendis á öðru eða þriðja misseri námsins.

  • Á fyrsta ári er áhersla lögð á að nemendur greini helstu sérkenni listhugsunar sinnar, vinnu og rannsókna.  Nemendur sitja vikulegar málstofur, þar sem leitast er við að setja listsköpun þeirra í listsögulegt og fræðilegt samhengi og þjálfa hæfni nemenda til að skýra frá starfi sínu í ræðu og rituðu máli.  Skyldufög á fyrsta ári eru einnig samtímalistfræði og þverfagleg málstofa MA-nema skólans, auk vikulangs námskeiðs með MA-nemum í hönnun. Á vormisseri er gengist fyrir röð einkasýninga 1. árs nema og undir lok misseris taka nemendur þátt í þematengdri samsýningu.  Meðal valfaga að vori eru sjálfstæð rannsóknarverkefni.
  • Seinna ár námsins hverfist um þróun MA-verkefnis. Nemendur sækja þó áfram málstofur myndlistar auk málstofu lokaritgerðar. Fjölmörg fræðanámskeið eru í boði auk sjálfstæðra rannsóknarverkefna og aðstoðarkennslu. MA verkefnið felur í sér sýningu á opinberum vettvangi.  Listsköpun er í öndvegi en nemendur skila einnig ritgerð um eigin verk og samhengi þeirra sem hluta meistaravarnar.  Sameiginleg útskriftarsýning einstaklingsverkefna MA-nema í myndlist og hönnun er opnuð í Gerðarsafni að vori.

Skilareglur á BA og MA stigi

Skilareglur vegna verkefna er að finna í kennsluáætlun hjá kennara viðkomandi námsskeiðs.