Upplýsingar um inntöku og inntökuferli í meistaranámi

 

Inntökuskilyrði

Til að öðlast inngöngu í námið skulu umsækjendur hafa bakkalárgráðu í myndlist eða skyldum greinum lista og fræða. Áhersla er lögð á að umsækjendur búi yfir þekkingu og færni til listsköpunar, sjálfstæðri og persónulegri sýn, ásamt frumkvæði og getu til að fylgja hugmyndum sínum eftir.

Inntökuferli

Í inntökunefnd sitja fastráðnir kennarar deildarinnar, einn utanaðkomandi myndlistarmaður eða listfræðingur auk deildarforseta, sem er formaður. Inntökunefndin hefur það hlutverk að velja úr hópi fullgildra umsókna umsækjendur sem hún telur hafa forsendur til að stunda nám á meistarastigi við myndlistardeild. Inntökunefndin hefur að leiðarljósi að viðkomandi geti sem best nýtt sér það nám sem í boði er í deildinni og því skal ekki túlka mat hennar sem einhlítan úrskurð um hæfni umsækjandans til listsköpunar yfirleitt. Skrifleg umsókn ásamt ferilmöppu með sýnishornum af verkum umsækjanda og fylgigögn þurfa að berast Listaháskóla Íslands samkvæmt auglýstum fresti.
Öll gögn sem fylgja umsókninni, s.s. einkunnir og meðmæli skulu vera staðfest afrit. Möppur skulu sóttar aftur fyrir lok júní. Ósóttar möppur verða ekki geymdar og áskilur skólinn sér rétt til að eyða þeim. Ef óskað er eftir að mappan verði send til baka með pósti skal það koma fram á fylgiblaði. Endursending er á kostnað umsækjanda.

Inntökuferlið er í eftirfarandi þrepum:

  • Umsækjandi sækir um skólavist á vef skólans og sendir til deildarinnar útprentaða og undirritaða umsókn ásamt fylgiskjölum og ferilmöppu. Ferilmöppur umsækjanda í MA nám eru ekki nafnlausar. 
  • Umsækjendur skulu hafa bakkalárgráðu í myndlist eða skyldum greinum lista og fræða. Gengið er út frá faglegri kunnátta, listrænu gildi, sjálfstæði og persónulegri sýn umsækjenda. Umsækjendur sem standast mat inntökunefndar komast í úrtakshóp.
  • Þeim sem komast í úrtakshóp er boðið í viðtal. Viðtalið hefur þann tilgang að kanna  afstöðu umsækjenda og viðhorf til myndlistar, skilning þeirra á fagvettvangi myndlistar og hugmyndir að baki verkum þeirra, auk getu til að vinna að eigin listsköpun og rannsóknum.
  • Tilkynningar um inntöku verða sendar út í lok maí 2014. Þeir umsækjendur sem fá boð um skólavist þurfa að staðfesta innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins hvort þeir taki boðinu með því að greiða staðfestingargjald. Gjaldið er óafturkræft en gengur upp í skólagjöld.
  • Öllum umsækjendum verður sent skriflegt svar við umsóknum. Úrskurður inntökunefndarinnar er endanlegur og henni er ekki skylt að gefa nánari skýringar á úrskurði sínum.

Námstillaga

Í námstillögu skal umsækjandi setja fram lýsingu á listrænum ásetningi og persónulegum markmiðum sínum með meistaranámi í myndlist við Listaháskóla Íslands. Tillagan skal vera ein til tvær blaðsíður að lengd. Í námstillögu þurfa eftirfarandi atriði að koma fram:

  • Hvers vegna umsækjandi sækir um meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands og hvaða væntingar hann hefur til meistaranámsins.
  • Aðferðir og miðlar sem umsækjandi hyggst styðjast við í námi sínu.
  • Greining á hugmyndaheimi verka og faglegu samhengi.
  • Hvaða viðfangsefni umsækjandi hyggst rannsaka í listsköpun sinni.

Ferilmappa

Ferilmappa um listsköpun umsækjanda með greinargóðu yfirliti yfir eigin verk. Mappan skal vera í A4 eða A3-stærð. Hún skal innihalda heimildir um allt að 20 verk umsækjanda; greinargóðar ljósmyndir, tölvuprent eða annars konar afrit af verkum. Athugið að mikilvægt er að tiltaka ef um samstarfsverkefni er að ræða. Verkin mega ekki vera eldri en fimm ára. Með hverju verki skal fylgja greinargóð lýsing þar sem fram kemur: titill, stærð, efni og ártal. Gera skal grein fyrir vídeóverkum með stillum og stuttri lýsingu á innihaldi þeirra auk þess sem hægt er að skila inn fylgigögnum vídeó- og/eða hljóðverka á DVD diski. Samanlögð heildarlengd slíkra verka skal ekki vera lengri en tíu mínútur. Ef um lengri verk er að ræða skal senda brot af verki, ásamt upplýsingum um heildarlengd.

Sérskipuð inntökunefnd metur umsóknir á grundvelli mats á innsendu efni og viðtölum. Umsækjendur sem staddir eru erlendis eða geta ekki mætt í viðtal, þurfa að vera reiðubúnir að eiga símaviðtal við inntökunefnd.

Tungumálakunnátta

Meistaranám í myndlist er alþjóðlegt nám. Enska er helsta kennslutungumál námsbrautarinnar en leiðsögn getur farið fram á ensku eða íslensku. 
Nemendur eiga að vera vel færir um að tjá sig bæði skriflega og munnlega á ensku. Gera má kröfu um að umsækjandi hafi staðist TOEFL-próf.

 

Rafræn umsókn í myndlistardeild.