Composition

Í BA-námi í tónsmíðum geta nemendur stundað nám í almennum tónsmíðum eða nýmiðlum, þar sem lögð er áhersla á notkun raf- og tölvutækni við gerð tónlistar. Þá hafa nemendur möguleika á að blanda þessum tveimur þáttum saman en einnig er boðið upp á valnámskeið í kvikmyndatónlist, sviðslistatónlist og upptökutækni.

Í náminu er lögð áhersla á að nemendur hljóti yfirgripsmikla þekkingu á aðferðafræði tónsköpunar og öðlist færni í að beita henni. Nemendur fá tækifæri til þess semja fyrir ýmsar samsetningar hefðbundinna hljóðfæra þ.á.m. fyrir einleikshljóðfæri, kammerhópa og hljómsveit auk kórs skólans. Nemendur læra að beita stafrænum miðlum til tónsköpunar og að blanda saman hefðbundnum og nýstárlegum tónlistarflutningi. Í nýmiðlum er m.a. lögð áhersla á grunnnám í hljóðhönnun, hljóðfræði og gagnvirkri tónlist ásamt samþættingu myndlistar/vídeó og tónlistar.

Tónsmíðanámið fer fram í einkatímum og hóptímum þar sem aðferðafræði tónsmíða er umfjöllunarefnið auk masterklassa þar sem nemendur kynnast fjölbreyttri flóru starfandi tónskálda og fræðimanna.

Nemendur hafa möguleika á því að vinna að verkefnum í samvinnu við Kvikmyndaskóla Íslands, sviðslistadeild LHÍ, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og ýmsa smærri kammerhópa eftir aðstæðum hverju sinni.

Programme: Composition
Degree: BA
Units: 180 ECTS
Study length: 6 terms – 3 years

Frá fagstjóra

Tónsmíðanám í Listaháskóla Íslands miðar að því að veita góða alhliða grunnmenntun og undirbúa nemendur fyrir skapandi störf á sviði lista og menningar. Einnig er kappkostað að gefa gott veganesti til frekara og sérhæfðara náms með markvissri þjálfun í aðferðum tónsköpunar, notkun hljóðfæra og raftækni og akademískum vinnubrögðum. 

Nemendur hafa möguleika á að því að vinna að fjölbreyttum verkefnum tengdum leiklist og dansi í samvinnu við sviðslistadeild LHÍ en einnig er möguleiki á samstarfi við aðrar deildir skólans. 

Hróðmar I. Sigurbjörnsson