Meistaranám í hönnun er fullt tveggja ára nám til 120 eininga og lýkur með MA-gráðu í hönnun. Miðað er við að nemendur ljúki 30 einingum af fræðilegu og verklegu námi á hverri önn. Verklegt nám skiptist í Hönnunarteymi, þematengda hópverkefnavinnu í vinnustofu og hins vegar Einstaklingsverkefni tengd rannsóknarstofum. Fræðilegt nám skiptist í hönnunartengd fræði, sameiginlegar málstofur og valnámskeið. 

Kennsluskrá sem PDF

Í vinnustofu Hönnunarteymis er tekist á við aðkallandi viðfangsefni í samtímanum og nemendur skilgreina verkefni í sameiningu með greiningu og gagnaöflun, vinna að tillögugerð sem breytir tilteknu ástandi til batnaðar, þróa verkefnaáætlanir og koma tillögum í framkvæmd. Verkefnið þarf að hafa augljósa tengingu í samfélagið, samstarf verður að vera mótað, verkefni hrint í framkvæmd og reynslu af verkferlinu og áhrifum þess miðlað. Í Hönnunarteymi er lögð áhersla á teymisvinnu þar sem nemendur fyrsta og annars árs vinna í sameiningu að heildarmarkmiðum stærra þematengds verkefnis og útfæra eigin eða sameiginlega verkþætti, í stakstæðum eða kerfislægum lausnum.

Einstaklingsverkefni eru þróuð með hliðsjón af tillögu nemenda í samhengi við sérhæfða þekkingarsköpun einstakra fagsviða innan deildar undir leiðsögn kennara í Rannsóknarstofum, s.s. Rannsóknarstofu um letur og miðlun, Rannsóknarstofu í ljósmyndarannsóknum, Rannsóknarstofu í myndmálsrannsóknum eða Rannsóknarstofu um rýmisrannsóknir.

Samhliða Einstaklingsverkefnum og Hönnunarteymisvinnu taka nemendur þátt í málstofum þar sem sérhæfðum viðfangsefnum fagsins eru gerð skil. Kenningar og aðferðafræði eru kynntar með fyrirlestrum og samræðum í málstofum og fræðilegur grunnur nemenda er styrktur til að þróa eigin verkefni.

Í sameiginlegum málstofum deilda innan Listaháskólans er gengist fyrir reglulegum samræðum nemenda og kennara þar sem sérstök áhersla er lögð á listrannsóknir og samþættingu listsköpunar og rannsókna. Í málstofunum er áhersla lögð á að nemendur úr ólíkum listgreinum vinni að sameiginlegum verkefnum.

Í hönnunartengdum fræðanámskeiðum er lögð áhersla á að miðla og auka skilning nemenda á hugsun, kenningum og aðferðum sem geta varpað nýju ljósi á og dýpkað hönnunarferli. Áhersla er lögð á þverfræðilega hugsun, menningarlega og samfélagslega greiningu.
Í öllu náminu er áhersla lögð á samþættingu fræðanáms og skapandi hönnunarnáms. 

Fræðanámið skiptist í þrjá þætti:

  • Hönnunartengd fræðanámskeið
  • Sameiginleg málstofa meistaranema í Listaháskólanum
  • Valnámskeið 

Með rannsóknarþjálfun, fræðilegu námi, þátttöku í málstofum, einstaklingsverkefnum og samstarfsverkefnum eru nemendur þjálfaðir í að eiga frumkvæði að verkefnum og stýra þeim, taka virkan þátt í samstarfi, axla ábyrgð og miðla af færni sinni, hugmyndum og kunnáttu við ólíkar aðstæður.

Kennsla

Kennsla fer fram í vinnustofu, í fyrirlestrum, í málstofum, í hópumræðutímum og í yfirferðum verkefna undir leiðsögn leiðbeinenda, sem starfa sem fagfólk innan og utan skólans. Nemendur öðlast skilning á og fá reynslu af mikilvægi teymisvinnu, innan skólans og í stærri þverfaglegum samstarfsverkefnum.

Nemendur hafa vinnuaðstöðu í sameiginlegri vinnustofu meistaranema í hönnun. Vinnustofan er vettvangur þekkingarsköpunar, listsköpunar, samstarfs og miðlunar. Vinnustofan skapar umhverfi sem veitir nemendum stuðning til sjálfstæðrar vinnu þar sem hvatt er til skapandi hugsunar og gagnrýnins viðhorfs á viðfangsefni samtímans.

Kennsluskrá sem PDF

Námsmat

Námsmat grundvallast á framvindu í vinnu nemendans á hverri önn. Við námsmat er litið á allt hönnunarferlið; gagnaöflun, rannsókn, greiningu, verkáætlun, hugmyndavinnu, miðlun, úrvinnslu og framsetningu og hvernig tekist er á við alla þætti hönnunar; frá hugmynd til framkvæmdar.

Sameiginleg yfirferð og rýni í verkefni nemenda fer fram í lok námskeiða, með kennurum og utanaðkomandi sérfræðingum. Við námsmat er litið til gæða verkefna og framsetningar.

MA-verkefni

Inntak útskriftarverkefnis skal vera að frumkvæði nemanda. Þar skipta áhugasvið hans, eigin tilfinningar og innsæi öllu máli. Nemandi skal afmarka og móta hönnunarferli verkefnisins (sjá mynd) í samvinnu við leiðbeinanda. Verkefnið skal vera í samfélagslegu samhengi; staðbundnu eða alþjóðlegu. Það skal vera ígrundað, sýna viðeigandi tæknilega hæfni, fagurfræðilegan skilning og siðferðilega vitund.

Í upphafi skal nemandi stöðugreina verkefnið (e. Situation Analysis) og gera skilmerkilega grein fyrir því hvers vegna viðfangsefnið er aðkallandi. Nemandi þarf að geta útskýrt samfélagslegt gildi og samhengi verkefnisins og gera áætlun um hönnunarferli.

Rannsóknarvinnan (e. Research and Context) er hluti af hönnunarferlinu. Hún skal alltaf beinast að því að fara út fyrir mengi þess sem nemandinn veit og skapa nýja þekkingu. Þessi vinna beinist að því sem hægt er að kenna og því sem þarf að uppgötva. Vinnuferlið skal skráð og gert sýnilegt, ásamt gagnasafni og hugmyndafræðilegu samhengi.

Stefnt er að því að vekja og þroska þau öfl sem liggja ónotuð eða eru óvirk. Mikilvægt er að þroska áræðni, finna og skilgreina andstreymi við verkefni sem og að meta og taka áhættu við framgang verkefnis. Nemandi skal gera sér grein fyrir hinu stærra samhengi.

Niðurstöður (e. Proposal / Thesis) skulu settar fram á lokasýningu sem opin er almenningi. Niðurstöður skulu vera ígrundaðar og sýna sjálfstæð og gagnrýnin vinnubrögð.

Hæfniviðmið

Við lok námsins eiga nemendur að: 

  • hafa skilning á kenningum, hugmyndafræði, hugtökum og aðferðum hönnunar og tengdra fræða í alþjóðlegu samhengi.
  • geta sýnt frumleika í verki, beitt innsæi og ímyndunarafli í listsköpun/hönnun.
  • geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir við mótun, úrvinnslu og framkvæmd verkefna og rökstutt á faglegum grunni.
  • geta skilið og tekist á við flókin viðfangsefni og útfært þau í faglegu samhengi.
  • geta nýtt þekkingu sína, skilning, innsæi í hönnun og faglegrI nálgun í starfi. 
  • geta átt frumkvæði að og stýrt verkefnum, geti tekið virkan þátt í samstarfi, axlað ábyrgð á áhrifum verkefna og miðlað af færni sinni  hugmyndum og kunnáttu í áheyrn sérfræðinga og almennings.
  • geta greint og metið siðferðilegar áskoranir í listrænu og fræðilegu samhengi.