Þýski tenórsöngvarinn Lothar Odinius heldur opinn masterklass fyrir söngnemendur tónlistardeildar LHÍ, föstudaginn 26. september frá 14 til 18. Gestir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur ókeypis.
 
Lothar Odinius er virtur og eftirsóttur óperusöngvari um allan heim; hann hefur komið fram í óperuhúsum á borð við Konunglega óperuhúsið í Covent Garden og Þjóðaróperuna í París og unnið með mörgum af virtustu stjórnendum heims, þeirra á meðal Emmanuelle Haïm, Mark Minkowski, Kirill Petrenko, Helmuth Rilling, András Schiff, Franz Welser Möst og Christian Thielemann. Verkefnaskrá hans spannar allt frá barrokktónlist til okkar tíma og hann tekst jöfnum höndum á við ljóðasöng, verk með kórum og sinfóníuhljómsveitum og óperuhlutverk en þar skipa óperur Mozarts veglegan sess. Á meðal tónlistarverkefna hans starfsárið 2017 - 2018 má nefna Missa Solemnis eftir Beethoven undir stjórn Steven Sloane, Sálumessu Mozarts undir stjórn Thomas Hengelbrock, Sköpunina eftir Haydn, einnig undir stjórn Thomas Hengelbrock, hlutverk Urbinos í Nótt í Feneyjum eftir Johann Strauss yngri og hlutverk Tító í La clemenza di Tito eftir Mozarts.
 
Masterklassinn fer fram í flyglasal á 3. hæð í Skipholti 31.