Garðar Eyjólfsson, fagstjóri meistaranáms í hönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild sýndi verkið „A Horsekeepers Grooming Kit“ á Hollensku hönnunarvikunni (Duth Design Week), sem fram fór í Eindhoven 21. – 29. október 2017. Verkefnið var býsna forvitnileg, titil verksins mætti þýða sem „Snyrtisett hestahirðisins“ og er tilgangur þess að kanna hvar mörkin á milli hestsins og mannskepnunnar liggja.
 
Garðar sýndi litla innsetningu sem samanstóð af snyrtisetti sem er gert úr hestahófum, skærum, þjöl og greiðu ásamt litlu myndbandsverki af manni að skipta um skeifu á hesti. „Þetta er partur af stærri rannsóknum sem ég hef verið að fást við síðustu ár. Ég hef áhuga á tengslum milli efna og ferla náttúrunnar í samhengi við mannleg inngrip og þá ferla sem mannskepnan skapar. Undanfarið hef ég verið að skoða samlífi dýra og manna og hvernig hugmyndir um samskipti þessara tveggja lífforma eru í sífelldri breytingu. Verkið miðar að því að varpa fram praktískum lausnum en á sama tíma setur verkið fram spurningar um nýtingu á dýraafurðum almennt. Það er ef til vill ekki síður mikilvægt að hönnunarrannsóknir setji fram verk sem kalla fram spurningar og samtal í samfélaginu. Undanfarin ár hef ég verið að skoða frásagnaraðferðir í ýmsum miðlum í tengslum við hönnun og getu þeirra til þess að varpa ljósi á dýpri hliðar hönnunarrannsókna. Oft nota ég myndband sem miðil til þess að koma óhlutbundnari skilaboðum áleiðis í bland við efnislega miðlun. Þannig miða ég að því að blanda saman efnis- og samhengisrannsóknum ásamt notkun á frásögnum í verkum mínum.“
 
„Dutch Design Week er ein af stærri hönnunarvikum Evrópu,“ útskýrir Garðar, „þar sem mikið er af tilraunkenndari sýningum og verkum í bland við markaðsvörur. Það er mikilvægt fyrir tilraunakenndan hönnuð að ná tengslum við slíka menningu erlendis, að ná samtali út fyrir landsteinana til þess að þroska mína eigin vinnu sem síðan mun vonandi skila sér aftur hingað heim. Það er og verður sífellt mikilvægara að sýna verk í öðrum menningarheimum til þess að þroska og þróa menninguna hér heima. Það er því mjög dýrmætt að finna tíma og fá tækifæri til þess að taka þátt í svona viðburðum og þá ekki einungis til þess að sýna verk heldur líka til þess að komast í snertingu við það sem er að gerast annars staðar, mynda tengslanet og stofna til samtals við annað fólk en hér heima.“