Á meðal ótal tónleika á tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar í ár er frumflutningur barnaóperunnar Gilitrutt eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur mun af því tilefni fjalla um óperu sína og sköpunarferlið á bak við hana á málstofu sem fram fer í húsnæði tónlistardeildar í Skipholti 31, föstudaginn 26. janúar, klukkan 13:15. 

Hildigunnur Rúnarsdóttir stundaði nám við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík með tónsmíðar sem aðalgrein og lauk þaðan prófi vorið 1989. Síðan nam hún tónsmíðar, hjá Professor Günter Friedrichs í Hamborg og Svend Hvidtfelt Nielsen í Kaupmannahöfn. Hildigunnur hefur starfað mikið með ýmsum kórum, þ.á.m. sönghópnum Hljómeyki. Helstu verk eru m.a. barnaóperan Hnetu-Jón og gullgæsin, Blandaðir dansar fyrir hljómsveit, Konsert fyrir fiðlu og hljómsveit, Messa í minningu Guðbrands Þorlákssonar, fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit (tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2003) og tónlist fyrir heimildamyndina Veðrabrigði. Einnig liggur eftir hana fjöldi kórverka og sönglaga. Verk Hildigunnar, Syngur sumarregn, fyrir kór og sópransóló og Andvökunótt, fyrir kór og baritón sóló, hafa verið valin á geisladiska kórahátíðarinnar Europa Cantat. 

Fyrirlesturinn fer fram, eins og áður sagði, föstudaginn 26. janúar frá klukkan 13:15 - 14:45 í stofu 633 í tónlistardeild, Skipholti 31. Ókeypis er á fyrirlesturinn og allir velkomnir.

Frumflutningur á Gilitrutt verður svo laugardaginn 27. janúar klukkan 12 í Iðnó.