FJÁRSJÓÐSKISTA FULL AF VISKU OG VERKFÆRUM

 
Thelma Björk Jónsdóttir er menntaður fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands með sérhæfingu í haute couture útsaumi frá Ecole Lesage í París. 
 
Thelma Björk er ein af þeim nemendum sem útskrifaðist með M.Art Ed. gráðu frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands 10. júní 2017.
 
Spangirnar gerði Thelma í samvinnu með ömmu sinni. Hér er á ferð útsaumur, krosssaumur og rósetta.
 

 

Réttindi og reynsla
Thelma segir að sig hafi lengið langað að koma í listkennslunámið:
 
„Ég á margar flottar vinkonur sem hafa lokið listkennslunáminu og þær hvöttu mig allar til að sækja um. Svo er ég líka jógakennari og þegar ég byrjaði að kenna jógað þá fann ég hvað það gaf mér mikið að kenna og miðla, “ segir hún og bætir við að sig hafi einnig langað í réttindi og reynslu sem listgreinakennari.
 
Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa fá nemendur starfsréttindi (leyfisbréf) til almennrar kennslu á grunnskólastigi og geta sótt leyfisbréf til kennslu í hönnun og listgreinum á framhaldsskólastigi.
 
 
Miðlun menningar og minninga
Á námstímanum vinna nemendur eigin verkefni sem geta verið í formi fræðilegrar ritgerðar, nýs námsefnis, skipulagningar listviðburðar, eigin listaverks eða listsköpunar þar sem aðferðum listrannsókna eða annarra rannsóknaraðferða er beitt. Verkefnin tengjast þó öll kennslu og miðlun á einhvern hátt.
 
„Í lokaverkefninu mínu er ég að rannsaka hvernig hægt er að notað handverk til að miðla menningu og minningum á sama tíma og vinnan hefur forsendur til að vera uppbyggjandi fyrir þátttakendur.
 
Ég skoða hversu jákvæð áhrif handavinnan hefur á sálarlíf fólks og tilveru. Því til stuðnings fjalla ég um sögu mína þar sem ég vísa í reynsluna sem listamaður og hvernig handverk hefur haft valdeflandi áhrif á mig sem einstakling frá því ég man eftir mér,“ segir Thelma. 
 
Listasmiðja í Norræna húsinu 22. apríl 2017 var hluti af lokaverkefni Thelmu Bjarkar. Myndir: Leifur Wilberg. 
 
 
Uppruni einstaklingsins
„Ég hef oft spurt mig, afhverju er handverk mér svona kært og afhverju er það fléttað inn í allt sem ég geri í dag?
 
Svarið er einfalt, það er þessi sterka tilfinning sem blossar alltaf upp hjá mér þegar ég er að bródera. Tilfinningin sem tengist minningu sem hleður mig af vellíðan, hugarró og sterkri tengingu milli hugar og handar.
 
Minningin er ég átta ára með ömmu í stofunni að prjóna og hekla í sófanum í algjöru flæði og gerði mér svo seinna meira grein fyrir því að þetta var mín fyrsta upplifun af hugleiðslu,“ segir Thelma sem telur að þegar unnið er með handverkshefðir sé verið að stuðla að sterkri tilfinningu fyrir uppruna einstaklingsins.
 
 
„Stór ástæða þess að ég vil kenna handavinnu og handverk er að ég vil viðhalda menningararfi okkar, til að stuðla að betri líðan og sterkari tilfinningu fyrir uppruna okkar og þar með þekkingu á sjálfinu, okkar sanna sjálfi.“
 
Námið tengdi allt saman
Inntak námsins miðar að því að þjálfa leiðtogafærni í listgreinakennslu þar sem listafólk úr ýmsum listgreinum vinnur saman og samhliða að kennslufræðilegum úrlausnarefnum. Þegar Thelma er spurð hvernig hún sjái fyrir sér að listkennsla muni nýtast henni sem listamanni hefur hún þetta að segja:
 
„Listkennslan blönduð saman við listamanninn er fullkomin blanda. Að kenna gefur þér svo mikinn innblástur fyrir þína eigin listsköpun.
 
Það sem stendur hæst eftir námið er risastórt tengslanet af fólki. Einnig tek ég með mér fulla fjársjóðskistu af visku og verkfærum sem munu nýtast mér í minni kennslu og almennt í öllu lífinu.
 
Það sem ég er kannski ánægðust með er að ég náði í gegnum námið að tengja allt saman sem ég hef verið að fást við í lífinu; fatahönnuðinn, jógakennarann, listamanninn og listkennarann í mér. Námið hjálpaði mér að tengja.“