Lokaverkefni Sunnu Karenar er tónlistarvinnusmiðja með barnakór. Afrakstur vinnunar verður fluttur og kynntur í Sölvhóli fimmtudaginn 4. maí kl. 18.

Flytjendur:
Reykjavíkurútibú Sunnukórsins

Verkefnið leit að því að skoða hvernig hægt sé að nýta vinnusmiðjur og aðrar aðferðir til að virkja sköpunarkraft barna í kórastarfi. Verkefnið var unnið í samstarfi við Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju og Skólakór Tónlistarskólans á Ísafirði.

Í vinnusmiðjunni vann kórinn sem hópur að sameiginlegri tónlistarköpun og fór í hugmyndavinnu með texta, tónefni og stíla. Hópurinn samdi tónverk saman sem heild og flutti verkið í sínu nærumhverfi. Eftir smiðjuna langaði mig að taka það sem varð til og miðla því áfram til stærri samfélagshóps. Til að tryggja verkinu framhaldslíf útsetti ég það annars vegar fyrir barnakórinn sjálfan og hins vegar og fyrir blandaðan kór, skipuðum fullorðnum einstaklingum.

Sunna Karen Einarsdóttir hóf tónlistarám 6 ára gömul en hefur sjaldan látið sér eitt hljóðfæri nægja. Í gegnum tíðina hefur hún stundað píanó- fiðlu- og söngnám hjá Listaskóla Rögnvaldar Ólafsson, Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarskóla FÍH. Sunna hefur verið mjög virk í kórastarfi frá unga aldri og sungið með hinum ýmsu kórum. Hún hóf nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands haustið 2014 og hefur m.a. hlotið þjálfun í rytmískum söng undir handleiðslu Bjarkar Jónsdóttur og Kjartans Valdemarssons, leiðtogafærni, tónlistarmiðlun, spuna og samspili hjá Gunnari Ben og Sigurði Halldórssyni og kórstjórn hjá Magnúsi Ragnarssyni og Gunnsteini Ólafssyni.

Haustið 2016 fór Sunna í skiptinám við Hartt School of Music í Connecticut í Bandaríkjunum og stundaði nám í tónlistarkennslu og söngnám hjá Shawnn Monteiro við jazzdeild skólans. Uppá síðkastið hefur Sunna verið sjálfboðaliði hjá samtökunum Stelpur rokka! og spilað með diskópoppsveitinni Boogie Trouble.
Nýverði stjórnaði hún frumflutningi á kórverkinu Brot eftir Sóleyju Sigurjónsdóttur og stýrði tónlistarvinnusmiðju á vegum Upptaktsins – Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna.