Tónlistardeild LHÍ og Söngskóli Sigurðar Demetz standa sameiginlega að nýju námskeiði á vegum Opna Listaháskólans. Óperusöngvarinn I, sem fer fram á komandi haustönn 2017 og Óperusöngvarinn II  sem fer fram á vorönn 2018. 

Á námskeiðinu Óperusöngvarinn I er unnið að því að búa þátttakendur undir áheyrnarprufur. Þeir fá að kynnast því hvernig áheyrnarprufum er háttað, t.d. í tónlistarháskólum, í söngkeppni, fyrir umboðsmenn og óperuhús. Meðal annars verður kynnt fyrirkomulag, kröfur og mismunandi áherslur í mismunandi löndum, s.s. Þýskalandi, Englandi og Bandaríkjunum. Þátttakendur fá þjálfun og reynslu í að fullvinna aríur og söngles (ít. recitativo); samhengi, texta og tónlistar, skoða bakgrunn verksins og persónusköpun. Farið verður yfir helstu þætti varðandi tónlistarstíl, framburð, textameðferð, líkamsvitund, kvíðastjórnun, söng-, leik- og sviðstækni. 

Á námskeiðinu Óperusöngvarinn II á vorönn kynnast nemendur starfi óperusöngvarans og hvað býr að baki undirbúningi og æfingum fyrir óperuhlutverk. Hvert er hlutverk óperuþjálfara (repetiteur), leikstjóra og hljómsveitarstjóra, sýningarstjóra og annarra er koma að óperuuppsetningum. Unnin eru atriði úr óperum, sem þegar hafa verið undirbúin af þátttakendum með því markmiði að atriðin verði sett á svið og flutt opinberlega í lok námskeiðsins.

Námskeiðið er hugsað sem mini óperustúdíó sem veitir söngvurum þjálfun í að vinna með óperuþjálfara, leikstjóra, hljómsveitarstjóra og öðrum söngvurum líkt og í óperuhúsi.

Nánari kynning á námskeiðunum verður birt fljótlega eftir páska. 

Tónlistardeild fagnar samvinnunni við Söngskóla Sigurðar Demetz og telur að hin mikla þekking og reynsla sem fólgin er í kennaraliði beggja stofnana skili sér í afbragðs námskeiði sem höfði til margra.