Verkefnið Landslag og þátttaka hlaut á dögunum veglegan styrk frá Skipulagsstofnun.

Megin tilgangur verkefnisins er að stuðla að aukinni þátttöku almennings í ákvörðunum er varða umhverfis- og skipulagsmál með landslag og gildi þess í forgrunni.

Verkefnið felst í því að þverfaglegur hópur rannsakenda (af sviðum heimspeki, mannfræði, landfræði, fornleifafræði, myndlistar, kennslufræði og hönnunar) vinnur ásamt staðkunnugum á tilteknu rannsóknarsvæði að því að draga upp mynd af gildi og merkingu landslagsins á svæðinu, með það að leiðarljósi að afrakstur verkefnisins geti nýst sem ein af forsendum skipulagsákvarðana. Markmið verkefnisins er þannig að leggja grunn að rannsóknarvettvangi þar sem nýjar leiðir til þátttöku í ákvörðunum er varða landslagsgæði verða þróaðar og prófaðar.

Verkefnisstjóri er Guðbjörg R. Jóhannesdóttir Nýdoktor í heimspeki við Heimspekistofnun Háskóla Íslands og aðjúnkt við Listaháskóla Íslands, listkennsludeild og hönnunar- og arkitektúrdeild.

Samstarfsaðilar eru Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur við Fornleifastofnun, Gunndís Ýr Finnbogadóttir aðjúnkt við listkennsludeild LHÍ, Edda R.H Waage, lektor í landfræði og ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Helga Ögmundardóttir lektor í mannfræði við félags- og mannvísindadeild Háskóli Íslands og Tinna Gunnarsdóttir prófessor í vöruhönnun við hönnnunar- og arkitektúrdeild við LHÍ.

 

Tímabil verkefnisins er september 2016 – júní 2018.

Mynd: Þorvarður Árnason