Einar Torfi Einarsson heldur fyrirlestur um eigin verk í opinni málstofu tónsmíðanema föstudaginn 11. nóvember kl. 13 í stofu 533, Sölvhólsgötu 13. Fyrirlesturinn mun skoða hugtökin endurtekning, þrávélar og skorsköpun og sýna hvernig þau birtast og þróast í verkunum Quanta, Repetition of Repetition og Desiring-Machines. Einnig verða önnur verk könnuð sem leita á mið vandamála, spurninga og tilrauna með nótnaritun, skorið, efni og ásetning.
 
Einar Torfi Einarsson er tónskáld og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann nam tónsmíðar í Reykjavík, Amsterdam, Graz, og lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá háskólanum í Huddersfield undir leiðsögn Aaron Cassidy. Hann hefur einnig sótt meistaranámskeið og einkatíma hjá Salvatore Sciarrino, Brian Ferneyhough, Beat Furrer og Peter Ablinger. 2013-2014 gegndi hann rannsóknarstöðu við Orpheus Institute í Belgíu. Tónlist hans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um alla Evrópu og unnið til verðlauna í Hollandi og Austurríki. Undanfarið hafa verk hans lagt áherslu á tilraunakennda nótnaritun þar sem mörk tónlistar og myndlistar eru könnuð.