Síðastliðinn laugardag var opnuð sýning á verkum Huldu Stefánsdóttur í BERG Contemporary við Klapparstíg. Hulda starfar sem prófessor og fagstjóri meistaranámsbrautar í myndlist við Listaháskóla Íslands og hefur samhliða vinnu sinni við skólann unnið að myndlist bæði hér heima og erlendis. Hulda lærði myndlist á Íslandi og í New York og kláraði meistaragráðu í myndlist, MFA, frá The School of Visual Arts í New York vorið 2000.

Hulda verður með leiðsögn um sýninguna FÆRSLA, næstkomandi laugardag kl. 15:00.

 

Í skrifum um sýninguna segir m.a.

Málverk Huldu Stefánsdóttur eru abstrakt og því sem næst eintóna en hún hefur lýst vinnuferlinu að baki þeim sem leit að tímalausum kjarna sem kalli þó um leið fram tilfinningu fyrir augnablikum sem gætu ekki tilheyrt öðrum tíma en núinu. Sýning hennar, Færsla, í BERG Contemporary fjallar um ómöguleika þess að fanga augnablikið án þess að það beri með sér bergmál af eða ummerki um hið liðna – hvernig „hér og nú“ er alltaf líka minning þess sem var. Í Færslu er hvítur litur dreginn af samsetningu litrófsins og birtan sprettur frá myrkrinu. Með sama hætti á sér stað tilfærsla frá bakgrunni til forgrunns og frá frummynd til eftirmyndar. Þetta eru kyrrlát málverk sem bjóða upp á margbreytilega upplifun í óstöðugumaðstæðum.