Deildarforseti myndlistardeildar Sigrún Inga Hrólfsdóttir er hluti af elsta og reyndasta gjörningahóp landsins, Gjörningaklúbbnum, ásamt Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur. Hópurinn vinnur nú tillögu sína áfram fyrir lokaval á framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins 2017. Sýningarstjórarnir Nadim Samman og Anja Henckel vinna að tillögunni með þeim en alls bárust fagráði Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) 29 tillögur frá listamönnum og sýningarstjórum. Valdar voru þrjár tillögur til þess að vinna áfram að nánari útfærslu verkefnanna. Aðrir listamenn sem valdir voru til að vinna sínar tillögur áfram eru:

Egill Sæbjörnsson með sýningarstjóranum Stephanie Böttcher.
Margrét Blöndal með sýningarstjóranum Alfredo Cramerotti.

Lokaval á framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins verður kynnt af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar í byrjun júní.
 
Gjörningaklúbburinn er ákaflega glaður að vera kominn í undanúrslit í keppninni um tvíæringinn. Þetta er virkilega sterkur riðill og við munum gera okkar besta í næstu umferð.
Gjörningaklúbburinn

 

Um Feneyjatvíæringinn
Feneyjatvíæringurinn er einn elsti og virtasti listviðburður heims, stofnaður árið 1895. Ísland hefur tekið þátt í tvíæringnum frá 1960. Árið 2015 tóku 89 þjóðir þátt í sýningunni og 44 samhliða sýningar fóru fram samtímis í borginni auk allra þeirra myndlistarmanna sem sýndu á alþjóðlegu sýningu Tvíæringsins. Ríflega 500,000 gestir sóttu sýninguna heim á því sjö mánaða tímabili sem sýningin stóð yfir og fullyrða má að allir áhrifaaðilar hins alþjóðlega myndlistarheims hafi mætt þar til leiks að vanda. Þeir listamenn sem hafa komið fram fyrir hönd Íslands á Feneyjatvíæringnum starfa á alþjóðlegum vettvangi og hafa skapað sér nafn bæði hérlendis og erlendis. Sýningarnar hafa vakið mikla athygli og hafa stuðlað að auknu vægi og sýnileika íslenskrar myndlistar á alþjóðavettvangi.