Tónleikarnir eru í Safnahúsinu þann 31. maí kl. 20:00 

Daníel Helgason hóf tónlistarnám sitt í Tónskóla DoReMí þá 6 ára að aldri. Nokkru síðar valdi hann sér gítar sem aðalhljóðfæri og nam þar við skólann til 12 ára aldurs hjá Rúnari Þórissyni. Þaðan fór hann yfir í Tónskóla Sigursveins og lærði hjá Þorvaldi Má Guðmundssyni. Þegar táningsárin tóku yfir fór áhuginn frá klassíska gítarnum yfir í rafgítarinn og skipti Daníel þaðan yfir í FÍH og útskrifaðist hann þar árið 2012. Helstu kennarar Daníels þar voru Andrés Þór, Hilmar Jensson og Sigurður Flosason. Síðan þá hefur Daníel leikið með alls kyns verkefnum og hljómsveitum t.d. Robert the Roommate, Samúel Jón Samúelsson Big Band, Kristjönu Stefánsdóttur og fleirum.

Árið 2013 hóf hann nám við Listaháskóla Íslands í tónsmíðum. Þar var hann undir handleiðslu Atla Ingólfssonar. Útskriftarverk Daníels nefnist Medium og er unnið út frá tilraun til að kanna það svæði sem leynist á milli dúr og moll.